Andlát: Þuríður Jóhanna Kristjánsdóttir prófessor

Þuríður Jóhanna Kristjánsdóttir.
Þuríður Jóhanna Kristjánsdóttir.

Þuríður Jóhanna Kristjánsdóttir, fyrrverandi prófessor við Kennaraháskóla Íslands, lést á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum síðastliðinn miðvikudag, nærri níutíu og eins árs að aldri.

Þuríður fæddist á Steinum í Stafholtstungum í Borgarfirði 28. apríl 1927. Foreldrar hennar voru hjónin þar, Kristján Franklín Björnsson, bóndi, hreppstjóri og húsasmiður, og Jónína Rannveig Oddsdóttir húsfreyja.

Þuríður stundaði nám við Héraðsskólann í Reykholti og tók kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands árið 1948 og var síðar við nám í Kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn og Cambridge háskóla í Englandi. Hún kenndi í Stykkishólmi, við Skógaskóla undir Eyjafjöllum og við Hagaskóla í Reykjavík.

Árið 1967 fékk Þuríður Fulbright-styrk til náms í Bandaríkjunum. Hún lauk BSc-prófi frá Illinois-háskóla í Urbana árið 1968, meistaraprófi 1969 og doktorsprófi í menntasálarfræði frá sama skóla árið 1971.

Hún varð kennari við Kennaraháskóla Íslands 1971 og fyrsti prófessor við skólann 1973. Hún var jafnframt konrektor í nokkur ár. Hún starfaði sem stundakennari við aðra skóla, meðal annars Háskóla Íslands og Fósturskóla Sumargjafar og vann fyrir skólarannsóknadeild menntamálaráðuneytisins. Þuríður lét af störfum við Kennaraháskólann árið 1989.

Auk fræðistarfa í fagi sínu vann Þuríður að þýðingum og fékkst nokkuð við ljóðagerð. Eftir að hún hætti að kenna vann Þuríður ötullega að útgáfu Borgfirskra æviskráa og voru sjö síðustu bindin undir hennar ritstjórn.

Í tilefni af 70 ára afmæli Þuríðar heiðruðu vinir hennar og samstarfsfólk hana með greinasafni um helstu viðfangsefni hennar á sviði menntunar og skólamála. Bókin ber heitið Steinar í vörðu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert