Vill hert eftirlit með Airbnb

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. mbl.is/Eggert

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir að gefa þurfi í þegar kemur að eftirliti með starfsemi Airbnb hér á landi.

Þetta kom fram í svari hennar við við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Miðflokksins.

Þorsteinn sagðist hafa á síðustu fimm árum beint fyrirspurnum til fimm ráðherra Sjálfstæðisflokksins um mál sem varða starfsemi Airbnb á Íslandi, sem sé líklega stærsta svarta hagkerfið á Íslandi.

Hann sagði svörin hingað til hafa lýst áhugaleysi og metnaðarleysi og spurði hvað Þórdís ætli að gera til að koma böndum á starfsemina.

Þórdís Kolbrún sagði Airbnb komið til að vera en nefndi að samkeppnisumhverfið þurfi að vera sanngjarnt, því skekkja sé í samkeppninni.

Hún kvaðst eiga fund með sýslumanni og skattinum eftir helgi þar sem farið verður yfir framkvæmdina á eftirlitinu með Airbnb og hvernig sé hægt að bæta hana.

Þorsteinn Sæmundsson.
Þorsteinn Sæmundsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorsteinn benti á að 312 leyfi séu skráð vegna Airbnb af um 3.500 aðilum sem leigi út. Þeir sem ekki séu skráðir séu að brjóta lögin.

Þórdís sagðist vilja sjá miklu meiri skráningu en nú er en tók fram að skráningin sé að aukast.

„Ég hef ekki fundið þá borg eða það land sem hefur leyst allar áskoranir sem snúa að Airbnb,“ sagði hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert