Viðhorfið til íslenskunnar mikilvægt

Eiríkur Rögnvaldsson segir að tryggja þurfi jákvætt viðhorf barna og …
Eiríkur Rögnvaldsson segir að tryggja þurfi jákvætt viðhorf barna og unglinga til íslensku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, segir að samræmd próf í íslensku séu ekki til þess fallin að skapa jákvætt viðhorf grunnskólabarna til tungumálsins, þar sem í þeim er sé lögð mikil áhersla á utanbókarlærdóm, orðflokkagreiningu, rétt mál og rangt og fleira slíkt.

„Það er verið að reyna að leiða krakkana í gildru dálítið og það er verið að kanna hvað þau kunna ekki frekar en hvað þau kunna og þetta bara er ekki gott,“ sagði Eiríkur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

„Ef við viljum að íslenska haldi sjó í þessari baráttu við enskuna sem hún stendur í núna, þá verðum við að tryggja það að börn og unglingar hafi jákvætt viðhorf til hennar. Það sé ekki þannig að enskan sé „hipp og kúl“ og íslenskan hallærisleg og leiðinleg,“ sagði Eiríkur, en hann átti fund með fulltrúa Menntamálastofnunar í síðustu viku þar sem hann ræddi þessi mál.

„Það fór ágætlega á með okkur en hvort þetta skilar sér síðan í prófunum veit ég ekki,“ sagði Eiríkur um þann fund.

Hann segir allt of mikið af beinum villum hafa verið í samræmdu prófunum og einnig að stundum sé fleiri en einn valmöguleiki í krossaspurningum sem geti staðist. Það geti verið ruglandi fyrir nemendur.

„Það er einn sem er augljósastur, en góðir nemendur gætu sé að stundum er annar möguleiki sem getur staðist. Þá fara þeir að velta fyrir sér; „Er það kannski þetta?“ og þeir geta orðið óöruggir af því og það er ekki gott náttúrlega,“ sagði Eiríkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert