Stöðugleikinn „með ólíkindum“

Allar 50 spár fyrir mánudag eftir viku falla innan þessa …
Allar 50 spár fyrir mánudag eftir viku falla innan þessa flokks. Lokuð háloftalægð kemur fram suðvestur af landinu og hæð er enn yfir Skandinavíu. Ljósmynd/Aðsend

Veðrið á Íslandi er oft sagt óútreiknanlegt. Fyrir hádegi skín sól, eftir hádegi haglél og þess á milli eitthvað allt annað. Síðustu vikur hefur veðurfar þó verið óvenjustöðugt, bæði á Íslandi og annars staðar í Evrópu. Áframhaldandi fyrirstöðuhæð er í kortunum yfir Skandinavíu með sól og blíðu, en lægð og skýjað hér heima.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir stöðugleikann í meginhringrás loftstraumanna í allt sumar vera „með hreinustu ólíkindum“.

Lítil óvissa í spám

„Þegar menn fóru að reikna veðurspár í tölvum gerðu þeir áður bara eina spá. Síðan tóku þeir eftir því að ef gerð er örlítil breyting á upphafsástandi getur það haft töluverð áhrif á útkomuna,“ útskýrir Einar. 

Því var tekið upp á því að framkvæma 50 spár með örlítið breytilegum upphafsástöndum. Útkomunum er síðan skipt upp í flokka, sex talsins, og fjölda þeirra spáa sem enda í tilteknum flokki má túlka sem líkur á því að veðrið passi við tiltekinn flokk. Með því fæst líkindadreifing fyrir útkomuna.

Það er til marks um stöðugleikann í veðurfari að útkomurnar úr spánum fimmtíu dreifast lítið á milli flokka. Sé til dæmis litið á spárnar viku fram í tímann falla þær allar í sama flokkinn og segir Einar að slíkt sé mjög óvenjulegt.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. Ljósmynd/Aðsend

En hvað veldur?

Einar tengir veðurfarið við flökt í sjávarhita, sérstaklega fyrir sunnan og vestan Ísland á svæðum nær Norður-Ameríku. Sjórinn suðvestur af Íslandi er kaldari en við eigum að venjast, en sjórinn frá stórum svæðum Bandaríkjanna og Kanada er miklu hlýrri en vanalega. Þetta hefur áhrif á varmatilflutninginn frá sjónum og til loftsins og þannig stöðu veðurkerfa í heild sinni.

Einar tekur dæmi af hæð sem kennd er við Azor-eyjar undan Portúgal vegna þess að miðja hennar er að jafnaði við Azor-eyjar. Hún hefur hins vegar verið mun vestar að undanförnu.

Ekki fyrirboði fyrir haustið

Spurður hvort tíðindasnautt sumar sé ávísun á sams konar haust segir Einar að svo þurfi ekki að vera. „Í svona fastri stöðu eins og núna þá þarf stundum að sprengja hana upp,“ segir Einar. Á sumri eru það oft fellibylir eða heitt loft úr suðri sem tekur það að sér, en það hefur enn ekki gerst. Á haustin séu það yfirleitt kuldapollar úr norðri sem sjái um það. Hann segir að ómögulegt sé að spá fyrir um það nú hvort haustið verður jafnlítilfjörlegt.

Hér má nálgast spákort Veðurstofu Íslands fyrir næstu tvær vikur með líkindadreifingu á flokkana sex sem áður voru nefndir.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert