Hljóp á meðan kartöflurnar suðu

Margrét í Dyrfjallahlaupinu ásamt syni sínum Ásgeiri.
Margrét í Dyrfjallahlaupinu ásamt syni sínum Ásgeiri. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hafði hvorki tíma né pening til þess að fara í heilsurækt og ákvað að skreppa bara upp á tún og skokka aðeins. Ég hljóp í tuttugu mínútur og það var alveg yndislegt. Ég uppgötvaði þarna hvað það er frábært að nota útivist fyrir heilsurækt,“ segir Margrét Jónsdóttir. Margrét verður sjötug í sumar og lauk nýverið við Dyrfjallahlaupið.

Margrét segir áhuga sinn af hlaupi eða trimmi eins og hún kallar það, hafa kviknað árið 1984. Þá var hún kennari með þrjá unga syni og vantaði hreyfingu. „Þá var verið að bora eftir heitu vatni á Seltjarnarnesi þar sem við bjuggum. Ég fékk smá ljós frá bornum til að vísa mér smá leið og skokkaði þarna rétt á meðan kartöflurnar suðu.“

Margrét hafði starfað sem íþróttakennari í tíu ár og árið 1985 var haldinn trimmdagur á Seltjarnarnesi. Hún kenndi á þeim degi og langaði svo í kjölfarið að halda áfram að stuðla að hreyfingu fólks. „Í kjölfarið byrjuðum við að hittast einu sinni í viku út júnímánuð þetta ár. Síðan bættum við miðvikudegi við. Þetta varð svo vinsælt að þegar haustaði vorum við búin að bæta þriðja deginum við. Þetta kölluðum við trimmklúbb Seltjarnarness og hann starfar enn í dag.“

Margrét í Dyrfjallahlaupinu ásamt syni sínum Ásgeiri.
Margrét í Dyrfjallahlaupinu ásamt syni sínum Ásgeiri. Ljósmynd/Aðsend

Trimmklúbburinn hittist þrisvar sinnum í viku næstu fimm ár. Á þeim tíma sá Margrét um upphitun og tók á móti byrjendum í sjálfboðavinnu. „Mér leiddist aldrei að mæta og ég hljóp alltaf með fólkinu. Ég hugsað sérstaklega vel um byrjendur og þess vegna varð til svona stór hópur.“

Skapaði sér eigin stöðu

Að árunum fimm liðnum gekk Margrét svo til bæjarstjóra og varð ráðinn íþróttakennari við almenningsíþróttir á Seltjarnarnesi. Staða sem hún bjó í rauninni til og starfaði við næstu sex árin auk þess sem hún var enn þá bæði íþrótta- og almennur kennari.

Auk trimmsins sá hún um vatnsleikfimi nokkrum sinnum í viku, morgunleikfimi og gönguhóp. „Þetta voru þessar almenningsíþróttir sem ég fékk laun fyrir og ég var þarna í sex ár í viðbót og naut þess vel. Ég nýtti mér síðan skokkið mjög mikið og mér líkaði alveg ofboðslega vel að vera úti.“

Margrét á leið á Búlandstind með trimmklúbbnum góða.
Margrét á leið á Búlandstind með trimmklúbbnum góða. Ljósmynd/Aðsend

Margrét segist alla tíð hafa haft ánægju af hvers konar hreyfingu. Auk hlaupanna nýtur hún þess að fara í göngur, spilar golf, fer á gönguskíði og keppir í blaki. „Mér finnst eiginlega öll hreyfing skemmtileg. Ég hef alltaf beðið fólk um að athuga það að velja íþrótt sem maður hefur gaman af. Það geta ekki allir unnið en við getum öll haft gaman af. Þú þarft að gera þetta eins og þér hentar.“

Hljóp Dyrfjallahlaupið sjötug

Þegar blaðamaður mbl.is náði tali af Margréti var hún með sonum sínum að ljúka golfhring eftir göngu með gamla trimmklúbbnum í Breiðdalsvík. „Við gengum heiðar og skörð og enduðum svo á Búlandstindi. Þetta er grasrót sem blómstrar,“ segir Margrét um hópinn.

Margrét á toppi Búlandstinds.
Margrét á toppi Búlandstinds. Ljósmynd/Aðsend

Margrét ákvað að slá tvær flugur í einu höggi á Austfjörðum og hljóp Dyrfjallahlaupið í Borgarfirði eystra með syni sínum um síðustu helgi. Hlaupið er tuttugu og þriggja kílómetra utanvegarhlaup og Margrét segist vera ánægð að hafa tekið þátt. „Þetta var rosalega mikið og erfitt en ánægjulegast er að ég gat þetta og leið vel á eftir.“

Hlaup í lengri kantinum eru ekkert nýtt fyrir Margréti. Hún á flest hálfmaraþon kvenna á Íslandi auk þess sem hún hefur hlaupið hálfmaraþon í Gautaborg og Vín. „Ég er með flest því ég er orðin svo gömul. Svo hef ég verið heppin að komast í svona mörg.“ Þá segir Margrét að hálfmaraþonin hafi verið góð leið fyrir hana til að sjá hvort hún ætti að halda áfram að kenna íþróttir.

Margrét í Dyrfjöllum.
Margrét í Dyrfjöllum. Ljósmynd/Aðsend

Margrét segir það ánægjulegt að sjá hvað hreyfing er orðinn fastur liður í daglegu lífi margra. „Það sem mér finnst gaman að sjá í dag er vakningin. Maður þótti svolítið skrítinn í gamla daga að vera að hreyfa sig. Og hvað þá að vera að skokka úti á Seltjarnarnesi. Það voru ekki margir sem skokkuðu þar þegar ég byrjaði á því. Það er svo ánægjulegt að sjá hvernig þróunin hefur verið.“

Þá segir Margrét mikilvægt að fólk fari varlega af stað og hlusti á líkamann. Hún segir mikilvægt að fólk keppist ekki stanslaust við að hlaupa sem lengst heldur sé mikilvægara að vera markviss. 

„Ég er óskaplega heppin með líkamann minn og mér líður vel í honum. Ég hef aldrei verið mikil keppnismanneskja og aldrei þurft að sigra. Ég læt alltaf kroppinn minn segja mér hversu mikið ég get. Það þarf ekkert alltaf að skokka ofsalega langt. Þetta stutta og markvissa er það besta fyrir líkamann. Að gera eitthvað smá á hverjum degi. Það má líkja þessu við tannburstun. Við þurfum alltaf að gera þetta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert