Olíulekinn ekki frá skipsflaki

Mynd frá vettvangi sýnir olíubrak í sjónum.
Mynd frá vettvangi sýnir olíubrak í sjónum. Ljósmynd/Aðsend

„Það er búið að útiloka að lekinn komi frá skipsflaki á botninum. Það eru engin flök þarna sem geta skýrt þennan mögulega leka,“ segir Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri Umhverfisstofnunar, í samtali við mbl.is. Enn er verið að rannsaka hvað olli stórum olíuflekk sem tilkynnt var um á sunnudag skammt frá Hrísey. Sýni var sent í greiningu í dag og beðið er eftir niðurstöðu frá rannsóknarstofunni en hún gæti tekið nokkra daga að berast.

Til­kynnt var um stór­an olíuflekk við Hrís­ey á sunnu­dags­morg­un og var hann áætlaður um 1,6 km á lengd og um 300-400 metr­ar á breidd. Haf­ist var handa við að kanna hvaðan lek­inn kæmi en eng­ar skýr­ing­ar hafa fund­ist enn. Í gær var búið að útiloka að lekinn kæmi frá flestum skipum sem sigldu um svæðið á sunnudag. Enn hefur engin tilkynning borist Umhverfisstofnun en skylda er að tilkynna um slíkan leka.

Treysta á sýni frá hvalaskoðunarbáti

Olíuflekkurinn sem tilkynnt var um í fyrstu fannst ekki við síðari skoðun á sunnudag. Á mánudag barst aftur tilkynning um olíuflekk suðvestur af Hrísey en hann fannst ekki heldur. Umhverfisstofnun hefur því ekki náð að taka sýni en hvalaskoðunarbátur sem var á svæðinu á sunnudag tók sýni sem gæti nýst við rannsóknina. Ekki er öruggt að sýnið sé nothæft.

Tilkynnt hefur verið um tvo olíuflekki skammt frá Hrísey.
Tilkynnt hefur verið um tvo olíuflekki skammt frá Hrísey. mbl.is/Árni Sæberg

Vegna veðurs og anna hefur flugvél Landhelgisgæslunnar ekki náð að fljúga yfir svæðið til að kanna það til hlítar en stefnt er að því að hún fari á morgun. Þá hafa gervitunglamyndir nýst illa vegna aðstæðna í Eyjafirði.

Umhverfisstofnun getur því lítið aðhafst í málinu á meðan beðið er eftir niðurstöðu frá rannsóknardeildinni sem skoðar sýnið annars vegar og myndum frá flugvél Landhelgisgæslunnar hins vegar. „Við ætlum að bíða og sjá hvað kemur út úr þessu og þá í rauninni að taka næstu ákvarðanir,“ segir Ólafur.

Þrjú skip voru upprunalega til skoðunar en búið er að útiloka að lekinn hafi komið frá tveimur þeirra. Búið er að taka sýni úr þriðja skipinu og verður það borið saman við sýnið frá hvalaskoðunarskipinu, ef það síðarnefnda reynist nothæft.

„Ef sýnið gefur ekki neitt til kynna og gæslan sér ekki neitt þá er ég ansi hræddur um að við komumst ekki áfram með málið. Við verðum að meta stöðuna eftir því sem við fáum niðurstöður frá þessum aðilum,“ bætir Ólafur við.

Alvarlegt ef tilkynningarskyldu er ekki fylgt

Eins og hefur komið fram er skylda að tilkynna um olíuleka til Umhverfisstofnunar en engin slík tilkynning hefur borist enn þá. Ólafur segir það alvarlegt mál þegar tilkynningarskyldu er ekki fylgt en að alvarlegastur sé þó umhverfisskaðinn og kostnaðurinn vegna aðgerðanna sem grípa þarf til vegna olíulekans.

„Auðvitað er alltaf alvarlegt er menn tilkynna ekki. Við viljum alltaf vita af slíku en það sem er hægt að mæla er hvaða skemmdir hafa orðið af völdum lekans og kostnaður vegna viðbúnaðar,“ segir Ólafur.

„Mælanlegi þátturinn er umhverfisskaðinn og þær aðgerðir sem við höfum þurft að fara í til að fylgja málinu eftir. Þetta er kannski hátt í aðra milljón sem kostnaðurinn er að safnast upp í út af þessu tilviki,“ bætir hann við að lokum.

Mynd frá vettvangi.
Mynd frá vettvangi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert