Samkeppnismat í samstarfi við OECD

Ferðamenn smella af sér sjálfu í miðbæ Reykjavíkur.
Ferðamenn smella af sér sjálfu í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslensk stjórnvöld munu á næstu misserum í samstarfi við Efnahags- og framfarastofnunina OECD framkvæma samkeppnismat á tilteknum sviðum atvinnulífsins, þ.e. í ferðaþjónustu og byggingariðnaði.

Báðir geirarnir eru umfangsmiklir og efnahagslega mikilvægir fyrir íslenskt atvinnulíf og stóðu fyrir um 15% af landsframleiðslu árið 2016.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Tilgangurinn með samkeppnismatinu er að greina gildandi regluumhverfi með tilliti til þess hvort í þeim reglum sem atvinnulífinu er gert að starfa eftir felist samkeppnishindranir eða óþarfa reglubyrði sem mætti ryðja úr vegi.

„Það á að vera hlutverk stjórnvalda að passa upp á að regluverk atvinnulífsins sé ekki meira íþyngjandi en nauðsynlegt er og því fagna ég þessu samkeppnismati,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í tilkynningunni.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur umsjón með verkefninu í samvinnu við Samkeppniseftirlitið. Verkstjórn verður í höndum samkeppnisdeildar OECD. Gera má ráð fyrir því að verkefnið taki 18 til 24 mánuði í framkvæmd auk eftirfylgni að því loknu.

Að verkefninu loknu mun OECD kynna niðurstöður þess í skýrslu og gera tillögur um breytingar sem eru til þess fallnar að bæta skilyrði fyrir virka samkeppni og draga úr reglubyrði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert