Krefja ríkið um fjögurrra milljarða endurgreiðslu

Allir aðrir tollar en á búvörur hafa verið afnumdir og …
Allir aðrir tollar en á búvörur hafa verið afnumdir og landbúnaður nýtur nú einn þessarar verndar fyrir samkeppni. Ljósmynd/FA

Fimm innflutningsfyrirtæki hafa stefnt íslenska ríkinu vegna ofgreiddra skatta í formi tolla á landbúnaðarvörur og krefjast um fjögurra milljarða í endurgreiðslu. Páll Rúnar M. Kristjánsson hæstaréttarlögmaður rekur málið fyrir fyrirtækin og segir gjaldtökuna augljóslega ólögmæta.

Dómkröfur fyrirtækjanna eru á þriðja milljarð, en auk þess er krafa gerð um greiðslu vaxta og dráttarvaxta. Staða kröfunnar í dag er því um fjórir milljarðar, að sögn Páls Rúnars, auk þess sem stöðugt bætist við hana vegna áframhaldandi innheimtu ríkisins á gjöldunum.

Í fréttatilkynningu frá Félagi atvinnurekenda segir að tollar af innflutningi á landbúnaðarvörur hér á landi hafi þá sérstöðu að ráðherra sé, undir ákveðnum kringumstæðum, heimilt að lækka þá eða fella niður. Umrædd málsókn byggist á því að skattar skuli samkvæmt lagaákvæðum aðeins ráðast af lögum og að óheimilt sé að fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema.

Því sé óheimilt að hafa skatttöku valkvæða með nokkrum hætti. „Það er ekki bara ólöglegt að framselja vald með þessum hætti heldur er það afskaplega óskynsamlegt. Langtímamarkmiðið á hins vegar að vera að hætta að vernda atvinnurekstur á Íslandi með tollum. Allir aðrir tollar en á búvörur hafa verið afnumdir og landbúnaður nýtur nú einn þessarar verndar fyrir samkeppni,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert