„Með stærri verkefnum sem ég hef tekið að mér“

Verkefnið er eitt hið umfangsmesta sem Rúnar hefur tekið að …
Verkefnið er eitt hið umfangsmesta sem Rúnar hefur tekið að sér. Ljósmynd/Henrik Gustafsson

Leikstjórinn Rúnar Ingi Einarsson leikstýrði nýverið auglýsingu fyrir sænska bílaframleiðandann Volvo, þar sem verið var að kynna nýjan Volvo S60. Verkefnið er með þeim stærstu sem Rúnar hefur tekið að sér en hann hefur starfað við leikstjórn síðastliðin ár bæði hérlendis og erlendis.

Auglýsingin var framleidd af sænska framleiðslufyrirtækinu New Land sem Rúnar hefur verið á mála hjá frá árinu 2016. Auglýsinguna má sjá hér.

Þótt Volvo-auglýsingin sé rúm mínúta á lengd tók vinnslan um eitt ár. Tökudagarnir voru 11 talsins og ferðaðist Rúnar ásamt 60 manna tökuliði um alla Svíþjóð við gerð myndarinnar, að undanskildum norðurhluta landsins.

Ýmislegt hefur gengið á á tökustað.
Ýmislegt hefur gengið á á tökustað. Ljósmynd/Henrik Gustafsson

„Þetta er með stærri verkefnum sem ég hef tekið að mér, bæði hvað varðar lengd framleiðslunnar og umfang. Ég myndaði síðasta sumar og myndin er búin að vera í eftirvinnslu og þróun síðan þá. Það var mikið umstang og fjör í kringum verkefnið, t.d. þyrluferðir og bílaeltingaleikur. Við tókum mikið upp í þyrlu.“

Byrjaði snemma að leikstýra

„Ég var alltaf að gera stuttmyndir sem unglingur á fermingarmyndavélina og hef haft áhuga á kvikmyndagerð og kvikmyndatöku síðan þá. Maður lagði mikinn metnað í þessar stuttmyndir í menntaskóla og fann að þetta var það sem maður vildi tileinka sér til framtíðar.

Þegar ég var 18 ára fékk ég svo starf hjá Sagafilm við framleiðslu auglýsinga og svo eftir að hafa leikstýrt nokkrum tónlistarmyndböndum var mér boðið að verða leikstjóri hjá Pegasus sem var algjör draumur. Það var síðan ekki fyrr en ég og konan mín fluttum til Stokkhólms að ég fór að fá fleiri verkefni erlendis sem svo hafa undið upp á sig,“ segir Rúnar.

Síðastliðin fimm ár hefur Rúnar bæði búið og starfað í Stokkhólmi og á Íslandi, auk þess að hafa unnið að leikstjórn víða um heim, t.a.m. í Bandaríkjum og víða í Evrópu. Þá hefur hann til að mynda leikstýrt stiklu fyrir hina geysivinsælu þáttaröð Game of Thrones. Nú rekur Rúnar framleiðslufyrirtækið Norður í samstarfi við True North.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert