Óánægja með ærslabelg

Krakkar leika sér á ærslabelg í Laugardalnum.
Krakkar leika sér á ærslabelg í Laugardalnum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lagt var fram bréf þriggja íbúa við Eyrargötu og Túngötu á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í gær vegna ærslabelgs sem nýlega var settur upp á Eyrartúni í nálægð við hús íbúanna.

Í bréfinu, sem var skrifað 3. september, er sett út á að íbúum hafi ekki verið tilkynnt um uppsetningu ærslabelgsins á þessum stað, engar upplýsingar séu um hvenær sé opið og að engin grenndarkynning hafi átt sér stað.

„Einungis eru um 25 metrar frá umræddu leiktæki að svefnherbergjum og stofum íbúðanna sem næst liggja. Hljóð berst skáhallt upp á við svo það má öllum vera ljóst að leiktæki sem þetta mun hafa verulegt ónæði í för með sér fyrir íbúa þessara húsa og rýra bæði lífsgæði þeirra og mögulega verðmæti,“ segir í bréfinu.

Þess er krafist að framkvæmdir verið stöðvaðar þar til gerð hefur verið betri grein fyrir framkvæmdinni og leiktækinu jafnvel fundin heppilegri staðsetning.

Ísafjarðarbær.
Ísafjarðarbær. mbl.is/Sigurður Bogi

Á fundi bæjarráðs var einnig lagt fram minnisblað sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs bæjarins, dagsett 7. september.

Þar segir að svæðið sem um ræðir sé skilgreint sem leiksvæði og almenningsgarður og því samræmist deiliskipulagi að hafa belginn þar. Ekki hafi því verið þörf á grenndarkynningu. Ákveðið var samt að færa leiktækið lengra frá umræddum húsum og stendur það nú í 40 metra fjarlægð frá þeim en var áður í 20 metra fjarlægð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert