Enginn vill 58 ára skiptinema

Kristján Gíslason við Litlu kaffistofuna þegar lagt var af stað.
Kristján Gíslason við Litlu kaffistofuna þegar lagt var af stað. Ljósmynd/Baldur Kristjánsson

Kristján Gíslason er breyttur maður og sér heiminn í öðru ljósi eftir að hann fór einn í tíu mánaða ferðalag umhverfis hnöttinn á mótorhjóli. Hvarvetna var honum tekið með kostum og kynjum. Bók um ferðalagið kom út í vikunni og í næsta mánuði verður heimildarmynd frumsýnd á RÚV.

Hann stóð á tímamótum; kominn á miðjan aldur, hafði selt fyrirtækið sitt og langaði að upplifa eitthvað nýtt og skemmtilegt. Sautján ára hafði hann farið sem skiptinemi til Bandaríkjanna og minntist þess tíma með mikilli hlýju. Er meira að segja ennþá í góðu sambandi við fólkið sem hann bjó hjá, sína aðra fjölskyldu. Það var stórkostlegt ár, mesta upplifun lífsins, og hann velti fyrir sér hvernig hann gæti endurupplifað þá sælu. Að fara aftur sem skiptinemi kom þó tæplega til greina enda viðbúið að erfitt yrði að finna fjölskyldu sem tekur við 58 ára gömlum manni.

Þá frétti Kristján Gíslason af vini sínum sem hafði í hyggju að fara á mótorhjóli umhverfis hnöttinn ásamt tveimur félögum sínum. „Mér fannst það stórkostleg hugmynd og varð strax ástarskotinn. Þetta ætlaði ég að gera,“ rifjar Kristján upp. „Mér datt í hug að slást í hópinn með þeim en það hentaði ekki. Í staðinn bað ég annan vin minn að koma með mér og hann sagði strax já. Ég fann hins vegar að áhugi hans var ekki eins mikill og hjá mér, þannig að ég setti honum afarkosti um áramótin 2013-14. Og þá sagði hann nei. Var ekki tilbúinn í svona langt og strangt ferðalag um framandi slóðir. Mín viðbrögð voru þau að hann væri búinn að lesa of mikið af neikvæðum fréttum á netinu.“

Fyrir framan óperuhúsið í Sydney. „Eftir þennan dag fannst mér …
Fyrir framan óperuhúsið í Sydney. „Eftir þennan dag fannst mér heimferðin hafin.“

Heljarstökk aftur á bak

Kristján lét þetta ekki slá sig út af laginu; ákvað í staðinn að fara bara einn. Seinna hættu raunar þremenningarnir við sína ferð og þegar vinur hans leitaði hófanna um samflot hafnaði Kristján því; hann væri búinn að ákveða að fara einn og við það miðaðist allur undirbúningur.
Vinir og vandamenn hleyptu almennt brúnum þegar hann kynnti áform sín fyrir þeim en studdu hann. Það á til dæmis við um eiginkonu hans til fjörutíu ára, Ásdísi Rósu Baldursdóttur. „Ef þetta er það sem þú vilt þá skaltu gera það,“ sagði hún.

Stuðningur er eitt, hvatning annað og hana fékk Kristján frá föður sínum, Gísla Kristjánssyni, sem þá var 89 ára. „Á sjötugsafmæli sínu, sem haldið var á Hótel Örk, kvaddi pabbi sér hljóðs á sundlaugarbakkanum áður en hann fór heljarstökk aftur á bak út í laugina. Mælti svo þegar hann kom upp úr: „Aldrei hætta að þora!“ Mikið til í því hjá honum. Auðvitað á að gæta skynsemi en í öllum bænum látið ekki hræðsluna koma í veg fyrir að þið fáið það sem þið getið út úr lífinu. Það er alla vega mitt mottó.“

Við tók átta mánaða undirbúningur, þar sem Kristján skipulagði leiðina sem hann vildi fara, fékk tilheyrandi sprautur, sótti um vegabréfsáritanir, lærði hjálp í viðlögum og skellti sér á sjálfsvarnarnámskeið hjá Mjölni, svo dæmi sé tekið. Hann tryggði sig líka fyrir mannráni, svo fjölskyldan fengi alltént bætur sneri hann ekki aftur. Allur er varinn góður.

Hressir strákar í Tyrklandi.
Hressir strákar í Tyrklandi.

Ferðamaður á mótorhjóli

Kristján þurfti líka að læra sitthvað um fararskjótann, BMW 800 GSA, til dæmis að gera við helstu hugsanlega kvilla, en öfugt við það sem margir lesendur gætu haldið þá var hann alls ekki vanur mótorhjólamaður. „Biddu fyrir þér. Ástríðuhobbíið mitt var alltaf golf, ég var kominn niður í eins stafs tölu í forgjöf, en eftir að ég fékk brjósklos árið 2012 þurfti ég að leggja kylfurnar á hilluna. Þá þurfti ég að finna mér nýtt hobbí og Guðmundur Ragnarsson vinur minn stakk upp á þessu. Hjólið heillaði mig strax upp úr skónum en ég lít samt ekki á mig sem mótorhjólamann, heldur ferðamann á mótorhjóli. Þetta er frábær ferðamáti.“

Kristján lagði í'ann í ágúst 2014 og gerði ráð fyrir að ferðalagið tæki fjóra mánuði. Mánuðirnir urðu á endanum tíu og hann hafði þá lagt 48.000 kílómetra í 36 löndum og fimm heimsálfum að baki. Sleppti Afríku í þessari lotu. „Ég ætlaði að taka stöðuna í Malasíu, hvort ég færi beint til Bandaríkjanna þaðan eða til Ástralíu; báðar leiðir eru viðurkenndar í hringferðinni. Niðurstaðan var sú að fara niður Indónesíu og þaðan til Ástralíu, Suður- og Mið-Ameríku áður en endað var í Bandaríkjunum.“

Það sem Kristján óttaðist mest á ferðalaginu var að skilja hjólið eftir og eiga á hættu að því yrði stolið. Þá hefði hann ekki aðeins tapað fararskjóta sínum, heldur líka öllum búnaðinum. Fyrir vikið vék hann helst ekki frá því og svaf til dæmis með það inni í tjaldinu þegar hann þurfti að sofa þar. Þessi strategía gafst vel og hjólið skilaði sér alla leið í mark.

Enda þótt Kristján ferðaðist einn var hann aldrei einmana á þessu ferðalagi; fólk dróst hvarvetna að honum. Bæði segir hann hjólið hafa virkað eins og segulstál á innfædda, þar sem hann kom, fólk sé víðast hvar óvant svona stórum hjólum, auk þess sem hann sjálfur var augljóslega kominn um langan veg. „Ég fann fyrir mikilli nánd við mannfólkið allt frá upphafi til enda ferðar. Fjölmargir gáfu sig á tal við mig, bæði vegna forvitni en ekki síður til að bjóða fram aðstoð sína. Það er raunar stærsta upplifunin í þessu öllu saman; að fólk er gott. 99,9% allra sem ég hafði samskipti við voru stórkostleg; greiðvikin og elskuleg.“

Morgunverðurinn hjá Hossein-fjölskyldunni í Íran.
Morgunverðurinn hjá Hossein-fjölskyldunni í Íran.

Yndislegt fólk í Íran

Hann nefnir Íran sem dæmi. „Fyrirfram var ég svolítið smeykur við að fara þangað inn enda heyrum við Vesturlandabúar yfirleitt bara neikvæðar fréttir þaðan. Þegar á reyndi var veruleikinn allur annar; yndislegra fólki hef ég ekki kynnst. Á fjórtán dögum fékk ég tíu heimboð eða boð um að fara út að borða. Í eitt skiptið borgaði meira að segja bláókunnugt fólk fyrir mig á veitingastað. Án þess að ég hefði svo mikið sem hitt það. Þegar ég bað um reikninginn var einfaldlega búið að greiða hann. Það var mikil lexía að þetta umdeilda land skyldi vera uppfullt af gæsku og gestrisni.“

Ferðalangurinn er raunar með skilaboð til fjölmiðla. „Ég hef verið hugsi yfir því hversu brenglaða mynd ég hafði af heiminum áður en ég lagði af stað í þetta ferðalag. Og er örugglega ekki einn um það. Við megum ekki trúa öllu sem sagt er í fréttum. Þar ræður hið neikvæða gjarnan ríkjum og hefur mjög auðveldlega mengandi áhrif. Í þessum skilningi virka fréttir eins og óbeinar reykingar og með þeim hætti erum við auðvitað að takmarka lífsgæði okkar. Við verðum að leggja meiri áherslu á það jákvæða í þessari tilveru og hefja okkur upp yfir dægurþras, lífið er alltof stutt fyrir neikvæðni. Við lifum í stórkostlegum heimi.“

Hann heldur áfram með þessa pælingu. „Talandi um fjölmiðla þá ætti það að vera hluti af námi sérhvers blaðamanns að fara á mótorhjóli umhverfis hnöttinn. Ég skal lána fyrsta blaðamanninum mitt hjól.“

Hann hlær.

„Að öllu gríni slepptu þá er lífið eins og myndabók. Viljum við bara sjá fyrstu myndina eða viljum við fletta áfram? Viljum við jafnvel láta aðra fletta fyrir okkur og ráða þannig hvað við sjáum?“

Viðtalið í heild má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »