Konu bjargað eftir að eldur kom upp

mbl.is/Hjörtur

Slökkviliðsmenn björguðu konu úr íbúð á þriðju hæð í fjölbýlishúsi skömmu fyrir miðnætti í gærkvöld eftir að eldur hafði komið upp í íbúðinni. Reykkafarar voru sendir inn í íbúðina vegna tilkynningar árvökuls nágranna.

Konan var hætt kominn samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins en haft er þar eftir lögreglunni að þótt eldurinn hafi ekki verið mikill og takmarkast við eitt svefnherbergi þegar slökkviliðið kom á vettvang hafi íbúðin verið full af reyk.

Konan var flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurlands til aðhlynningar en grunur var um að hún hefði orðið fyrir reykeitrun. Fjölbýlishúsið var rýmt á meðan á slökkvistarfinu stóð sem gekk hratt og vel fyrir sig. Fólk fékk að snúa aftur heim til sín þegar reykræstingu var lokið.

Eldsupptök eru ókunn en rannsókn málsins er í höndum lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert