Borga fyrst, borða svo

Það styttist til jóla og farið verður að bjóða upp …
Það styttist til jóla og farið verður að bjóða upp á jólahlaðborð á veitingahúsum þegar um næstu helgi. Síðan fylgja jólamatseðlar. Vinsælt er hjá hópum að fara saman út að borða jólamat í aðdraganda jólanna. mbl.is/Árni Sæberg

Jólahlaðborð byrja á veitingahúsunum VOX og Satt um næstu helgi og helgina þar á eftir koma jólamatseðlar á veitingahúsunum Geira Smart og Slippbarnum. Hildur Ómarsdóttir, markaðsstjóri hjá Icelandair hótelunum, segir þau finna fyrir miklum áhuga á jólamatnum og nú þegar séu komnar margar bókanir.

„Við erum þakklát öllum þeim fjölda hópa sem hafa komið ár eftir ár til okkar í hlaðborð, ýmist á Hilton eða Reykjavík Natura sem og á landsbyggðarhótelunum. Á Reykjavík Marina og Canopy Reykjavík bjóðum við upp á jólamatseðla í stað hlaðborðs og erum þannig að gera okkar besta til að ná til sem flestra með fjölbreyttu úrvali,“ sagði Hildur.

Morgunblaðið heyrði af vinahópi sem ætlar á jólahlaðborð hjá Satt á Reykjavík Natura og var beðinn að greiða fyrirfram. Eins var mælt með því að drykkir yrðu pantaðir fyrirfram. Hildur sagði það ekki skilyrði að panta drykki fyrirfram. „Við höfum hins vegar lagt það til þegar hópapantanir eru lagðar inn að það geti flýtt afgreiðslu ef vínpöntun liggur fyrir. Eins höfum við verið með sértilboð á drykkjum fyrir stærri hópa og því ráðlagt fólki að skoða þau í slíkum tilvikum.“

Fyrirframgreiðsla ekki ný

Það hefur tíðkast í um sex ár hjá veitingastöðunum Satt, VOX, Slippbarnum og Geira Smart að fara fram á fyrirframgreiðslu hjá stærri hópum.

„Við erum gjarnan að taka frá heilu salina fyrir sérhópa, sem þá er ekki hægt að nýta með öðrum hætti ef þeir svo mæta ekki,“ sagði Hildur. „Samanlagt taka okkar veitingastaðir á móti fleiri þúsund manns árlega í bæði hlaðborð og jólamatseðla og reynum við hvað við getum að hafa fyrirkomulagið með þeim hætti að hægt sé að gera sem best við alla okkar gesti, hvort sem þeir koma í hópum eða sem einstaklingar. Nú er til að mynda að verða æ vinsælla fyrir stórar fjölskyldur að koma saman á veitingastað í stað þess að hittast í heimahúsi. Í þeim tilvikum þegar enginn einn er ábyrgur fyrir greiðslu, þá komum við að sjálfsögðu til móts við þá hópa og tökum við greiðslu frá hverjum og einum gesti þegar því verður við komið. En það gefur einnig augaleið að því fylgir verulegt óhagræði og tekjutap ef stórar bókanir eru afbókaðar með stuttum eða engum fyrirvara.“

Hildur segir að annað gildi um einstaklinga eða pör því auðveldara sé að selja tveggja manna borð með litlum fyrirvara en borð fyrir tuttugu manns eða fleiri.

Allt að 500 gestir í hópi

Stærstu pantanirnar séu fyrir allt að 500 gesti. Þá hefur það komið fyrir að hópar hafi pantað og síðan ekki látið sjá sig. Eins hefur það gerst að sami hópur hafi bókað sig á fleiri en einum stað og svo valið á síðustu stundu hvar skyldi borða með tilheyrandi tapi fyrir þann stað sem ekki varð fyrir valinu.

Hildur segir að komi upp forföll í hópi sem sé búinn að panta og borga t.d. fyrir jólahlaðborð sé að sjálfsögðu reynt að koma til móts við fólk í þeim kringumstæðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka