Mál sem rata í fjölmiðla oft mál sem fara illa

Kolbrún Benediktsdóttir var til viðtals hjá Björt Ólafsdóttur í morgun.
Kolbrún Benediktsdóttir var til viðtals hjá Björt Ólafsdóttur í morgun. Hanna Andrésdóttir

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir að lögregla sé sífellt að verða betri í yfirheyrslutækni og segir að leiðbeiningar um meðferð kynferðisbrotamála séu góðar, en séu komnar til ára sinna og þurfi að uppfæra. Þetta er á meðal þess sem fram kom í spjalli Kolbrúnar og Bjartar Ólafsdóttur, í Þingvöllum á K100 í morgun.

Kolbrún og Björt ræddu meðferð kynferðisafbrotamála og ferilinn sem þau ganga í gegnum hjá yfirvöldum en ástæða þess að Björt fékk Kolbrúnu í spjall var m.a. sú að Agnes Bára Aradóttir birti í vikunni á fésbókarsíðu sinni skjáskot úr skýrslutöku yfir manni hjá lögreglu, sem hún segir að hafi nauðgað sér en kæru á hendur manninum var vísað frá. Á myndunum sem Agnes birti má m.a. sjá að lögregla spurði manninn við yfirheyrslu: „En hún er ítrekað búin að þarna segja nei, ég vil ekki samneyti við þig?“ sem viðmælandinn kveður já við. 

Eins og áður segir var kærunni vísað frá og gat Kolbrún ekki tjáð sig um þetta einstaka mál en þær Björt ræddu hins vegar um verkferla og venjur í viðlíka málum.

Fyrstu rannsóknir mikilvægar

„Þau mál sem rata oft í fjölmiðla eru kannski málin sem fara illa. Málin sem að fara alla leið og enda með sakfellingu, þau fá stundum minni athygli. Við sjáum kannski aldrei alla heildarmyndina í fjölmiðlum en auðvitað er það alveg rétt að það er stór hluti kynferðisafbrotamála sem fer ekki áfram, annaðhvort er rannsókn hætt hjá lögreglu eða mál eru látin niður falla vegna þess að þau eru ekki talin líkleg til sakfellingar hjá ákæruvaldinu,“ sagði Kolbrún.

Hún sagði að hjá lögreglu og ákæruvaldi hefði verið lögð áhersla á að bæta gæði rannsókna og benti á mikilvægi þess, m.a. vegna þess að í kynferðisafbrotamálum væru munnlegir framburðir oft aðal-, og jafnvel eina, sönnunargagnið.

Kolbrún útskýrði einnig að nauðgunarhugtakið hefði tekið þróun á seinustu árum og að dómaframkvæmd bæri því vitni. Hún nefndi sem dæmi nýlegt mál þar sem fallist var á að það teldist tilraun til nauðgunar „að setja sig í samband við ungan dreng undir fölskum formerkjum og fá hann til þess að taka þátt í kynferðislegu spjalli og senda mynd af kynfærum sínum og svo að hóta því að birta það opinberleg ef hann ekki kæmi og hefði kynferðismök við geranda.“

Viðtalið í heild má heyra á vef K100.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert