„Þetta kom skemmtilega á óvart“

„Ég er búinn að vera að gera útvarps- og tónlistarþætti …
„Ég er búinn að vera að gera útvarps- og tónlistarþætti fyrir Rás 1 í rúm 30 ár, þannig að það má skilja þessi verðlaun sem klapp á bakið og þakkir fyrir vel unnin störf. Það er alltaf gaman þegar einhver tekur eftir því sem maður er að gera,“ segir Pétur Grétarsson sem stýrir tveimur vikulegum tónlistarþáttum á Rás 1, Hátalaranum á mánudögum og Hitaveitunni á föstudögum. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

„Þetta kom skemmtilega á óvart, enda falleg viðurkenning,“ segir tónlistar- og dagskrárgerðarmaðurinn Pétur Grétarsson sem fyrir stundu hlaut Lítinn fugl, heiðursverðlaun Samtóns, fyrir framúrskarandi störf í þágu íslenskrar tónlistar sem veitt eru á Degi íslenskrar tónlistar sem haldinn er hátíðlegur í dag.

„Ég er búinn að vera að gera útvarps- og tónlistarþætti fyrir Rás 1 í rúm 30 ár, þannig að það má skilja þessi verðlaun sem klapp á bakið og þakkir fyrir vel unnin störf. Það er alltaf gaman þegar einhver tekur eftir því sem maður er að gera,“ segir Pétur sem stýrir tveimur vikulegum tónlistarþáttum á Rás 1, Hátalaranum á mánudögum og Hitaveitunni á föstudögum.

Pétur Grétarsson hlaut verðlaunin Lítinn fugl í dag á degi …
Pétur Grétarsson hlaut verðlaunin Lítinn fugl í dag á degi íslenskrar tónlistar. mbl.is/​Hari

Pétur nam slagverk, fyrst í einkatímum hjá Guðmundi Steingrímssyni djasstrommara og síðar hjá Reyni Sigurðssyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Þaðan lá leið hans til Boston og stundaði hann slagverksnám hjá Dean Anderson við Berklee College of Music á árunum 1980-1984. Pétur hefur leikið með ýmsum þekktum hljómsveitum, þeirra á meðal Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Íslensku hljómsveitinni, Stuðmönnum og Caput. Hann hefur einnig leikið í hljómsveitum leikhúsanna og samið tónlist fyrir þau. Pétur hefur verið framkvæmdastjóri Jazzhátíðar í Reykjavík og Íslensku tónlistarverðlaunanna. Hann kennir slagverksleik við Tónlistarskóla FÍH.

Í rökstuðningi dómnefndar Samtóns segir: „Verðlaunin eru veitt fyrir einstaklega vandaða og innihaldsríka umfjöllun um íslenska tónlist í útvarpi um langa hríð – sem er öðrum til eftirbreytni. Þættir hans hafa vakið sérstaka athygli fyrir eftirtektarverða dýpt í umfjöllun, frumlega framsetningu og fundvísi á hið fágæta. Einnig hefur hann sýnt alúð og ræktarsemi við íslenska djasstónlist sem framkvæmdastjóri Jazzhátíðar í Reykjavík og ekki þarf að fjölyrða frekar um dýrmætt framlag hans til tónlistarsköpunar um langa hríð.“

Pétur Grétarsson, tónlistar- og dagskrárgerðarmaður.
Pétur Grétarsson, tónlistar- og dagskrárgerðarmaður. mbl.is/​Hari

Inntur eftir því hvaða gildi Dagur íslenskrar tónlistar hafi segir Pétur nauðsynlegt að minna á að á bak við alla músík sem við heyrum séu ótalmörg handtök. „Ég er talsmaður þess að meiri músík heyrist í útvarpinu heldur en nú er og mín rök fyrir því er að það liggur mun meiri vinna og hugsun á bak við tónlist sem við spilum heldur en tveggja manna tal,“ segir Pétur en ítarlegra viðtal við hann má lesa í Morgunblaðinu á morgun. 

Þrenn hvatningarverðlaun veitt 

SAMTÓNN stendur árlega fyrir Degi íslenskrar tónlistar og veitir verðlaun þeim sem skarað hafa fram úr í umfjöllun, dagskrárgerð eða almennum stuðningi við íslenska tónlist. Þrenn hvatningarverðlaun voru afhent samhliða Litla fuglinum. 

Gluggann fær Vikan með Gísla Marteini fyrir einstakt atfylgi við íslenska tónlist í sjónvarpi. Framleiðandi þáttarins er Ragnheiður Thorsteinsson og stjórnandi þáttarins Gísli Marteinn Baldursson.

Þorkell Máni Pétursson, best þekktur sem Máni á Xinu, fékk sérstök hvatningarverðlaun fyrir að rækta jaðarinn og hefja merkisbera íslenskrar tónlistar til nýrra vegsemda.

Sérstök nýsköpunarverðlaun fær útvarpsstöðin Útvarp 101 fyrir lofsverða djörfung í hörðum heimi miðlunar en stefna útvarpsstöðvarinnar er að spila að minnsta kosti 50 prósent íslenskt og að minnsta kosti 50 prósent með kvenflytjendum og/eða höfundum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert