Jáeindaskanni loks formlega opnaður

Hér kynnir Pétur Hannesson, yfirlæknir röntgendeildar Landspítans, jáeindaskannann fyrir viðstöddum. …
Hér kynnir Pétur Hannesson, yfirlæknir röntgendeildar Landspítans, jáeindaskannann fyrir viðstöddum. Honum á hægri hönd er Alma Dagbjört Möller landlæknir. mbl.is/Eggert

Formleg opnun jáeindaskannans á Landspítalanum fór fram skömmu eftir hádegi í dag. „Gríðarlega mikilvægt verkefni sem ekki hefði verið mögulegt og ábyggilega ekki svo fljótt sem raunin varð, ef ekki hefði verið fyrir aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar,“ sagði Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans í ræðu við athöfnina.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, var einnig viðstaddur. Í ræðu sinni gagnrýndi hann enn um sinn seinagang opinberra verkefna, eins og hann hefur áður gert í þessu samhengi, en fagnaði engu að síður því, að jáeindaskanninn væri kominn í gagnið. Íslensk erfðagreining lagði verkefninu til rúmar 700 milljónir.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var ekki viðstödd athöfnina og Páll færði kveðjur hennar til fundargesta, því hún komst ekki sökum anna á þinginu. Kári Stefánsson gagnrýndi fjarveru hennar í ræðu sinni.

Kári Stefánsson hélt stutta tölu, rétt eins og þeir Pétur …
Kári Stefánsson hélt stutta tölu, rétt eins og þeir Pétur Hannesson röntgenlæknir og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Eggert

Jáeindaskanninn nýtist fyrst og fremst til þess að greina og meðhöndla krabbamein en einnig ýmsa aðra sjúkdóma. Þetta er tækni sem hefur kallað á utanferðir sjúklinga, því hún hefur ekki verið fyrir hendi hérlendis.

Talað er um að á tólfta hundrað sjúklinga geti gengist undir rannsókn í skannanum á ári en áður voru að meðaltali 200 sendir út til Danmerkur árlega. Ekki er því aðeins bót í máli fyrir þá sem þurfa rannsókn í skannanum bráðnauðsynlega, heldur verða þar að auki einfaldlega fleiri jáeindaskannanir framkvæmdar.

Eðlilegt að spítalinn þiggi gjafir

Skanninn var tekinn í gagnið í ágúst en einhverjir tæknilegir örðugleikar létu á sér kræla fyrst um sinn. Nú gengur ferlið hins vegar smurt fyrir sig. „Opnum ekki hluti með pomp og prakt nema við vitum að þeir virki,“ segir Páll Matthíasson í samtali við mbl.is.

Páll segir skannann til mikilla hagsbóta, ekki síst fyrir þá sem voru of veikir til þess að ferðast á sjúkrahús í Kaupmannahöfn til rannsóknar. „Það er allt annað að koma bara hingað á Landspítala í skannann,“ segir Páll.

Að öðru leyti telur hann fé Landspítalans til tækjakaupa með viðunandi hætti, ólíkt því sem áður var. Öðrum lögmálum lúti stór kaup eins og þessi jáeindaskanni og Páll segir í því samhengi að peningagjafir til tækjakaupa frá velunnurum spítala þekkist víða um heim. „Í hinum fullkomna heimi þyrftu stjórnvöld ekki að þiggja svona gjafir en það er nú vel þekkt víða um heim að ferlum sé hraðað með þessum hætti,“ segir Páll um styrk ÍE til spítalans fyrir skannanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert