„Loftslagsskógur“ á Mosfellsheiði

Þoka á Mosfellsheiði.
Þoka á Mosfellsheiði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur samþykkt að fela bæjarstjóra að hefja viðræður við sjóðinn Kolvið, Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og Skógræktarfélag Reykjavíkur, um að búa til „loftslagsskóg“ á Mosfellsheiði.

Þetta kom fram á fundi bæjarráðs í gærmorgun. Í fundargerð er vísað í erindi um skóginn sem barst 21. nóvember, undirrituðu af fulltrúum Kolviðs og skógræktarfélaganna tveggja. Þar kemur fram að undirbúningshópurinn „Loftslagsskógar“ á Mosfellsheiði sé skipaður fulltrúum þessara þriggja aðila. Hann vill klæða Mosfellsheiðina skógi til bindingar kolefnis en einnig búa til nýja útivistarparadís. Þar að auki myndi slíkur skógur skapa verulegt skjól fyrir þá byggð sem er vestan við hann.

Kolviður, sem er sjóður í umsjá Skógræktarfélags Íslands og Landverndar, vinnur að því að auka bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi til að draga úr styrk koldíoxíðs í andrúmsloftinu.

100 þúsund plöntur á ári

Í dag kolefnisjafna um 40 fyrirtæki losun sína og gróðursetur Kolviður rúmlega 100 þúsund plöntur á ári til þess að jafna losunina. Gert er ráð fyrir að veruleg aukning verði í eftirspurn eftir kolefnisjöfnun á næstu árin og að fram til ársins 2025 þurfi Kolviður að tryggja sér aðgang að 700 til 1.000 hektara lands fyrir allt að 2,5 milljónir plantna, að því er kemur fram í erindinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert