Farþega vísað frá borði að beiðni yfirvalda

Farþeganum var vísað frá borði þar sem flugfélagið fékk upplýsingar …
Farþeganum var vísað frá borði þar sem flugfélagið fékk upplýsingar frá bandarískum yfirvöldum um að farþeginn mætti ekki koma til Bandaríkjanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögregluyfirvöld á Keflavíkurflugvelli þurftu að vísa farþega frá borði úr flugvél WOW air sem átti að fljúga til Los Angeles í Bandaríkjunum klukkan 16:00 í dag. Var það vegna beiðni flugfélagsins eftir að bandarísk yfirvöld höfðu samband og létu vita af því að farþeginn hefði ekki heimild til að koma til Bandaríkjanna.

Samkvæmt aðalvarðstjóra á flugstöðvardeild lögreglustjórans á Suðurnesjum var um að ræða einn einstakling sem var tekinn frá borði. Er hann erlendur ríkisborgari.

Ekkert kom fram í kerfum íslensku lögreglunnar um manninn að sögn aðalvarðstjórans og var hann ekki handtekinn. Var honum gerð grein fyrir skilaboðum bandarískra yfirvalda en þau komu farþeganum á óvart sem ætlar í kjölfarið að hafa samband við bandaríska sendiráðið hér á landi og óska skýringa á því af hverju honum sé óheimilt að ferðast til Bandaríkjanna.

Atvik sem þetta eru sjaldgæf að sögn aðalvarðstjórans, en þó ekki óþekkt.

Lögreglan skoðaði vegabréf farþegans og fletti honum upp í kerfum sínum eftir að honum var fylgt frá borði, en ekki var um falsað vegabréf að ræða og reyndist farþeginn vera réttur handhafi þess.

Nokkur töf varð vegna atviksins, en farþegar voru allir komnir um borð. Samkvæmt vef Isavia var lokaútkall aftur fram til klukkan sex og er nú staðfest að hliði hafi verið lokað. Er því líklegast um að ræða tveggja tíma töf á fluginu vestur um haf.

mbl.is