Og alltaf elti skugginn

Sævar Þór Jónsson.
Sævar Þór Jónsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sævar Þór Jónsson lögmaður var gróflega misnotaður kynferðislega af þremur ókunnugum einstaklingum þegar hann var aðeins átta ára. Í stað þess að segja frá þagði hann og gróf atvikið dýpra og dýpra í sálarlíf sitt. Uppgjörið kom ekki fyrr en um þrjátíu árum síðar en þá sá Sævar að hann yrði aldrei heill maður nema hann tækist á við skugga fortíðar sinnar. Það sem hjálpaði honum mest í þeirri glímu var fyrirgefningin. Hann hefur fyrirgefið níðingunum.

Hann er átta ára gamall, einn að leik í vesturbænum í Reykjavík. Saklaus, sæll og glaður. Illska heimsins eins óviðkomandi honum og hún getur mögulega orðið. Á vegi hans verður ókunnug kona sem biður hann vingjarnlega um að koma með sér inn í gamalt vöruhús í grenndinni. Hann hreyfir engum andmælum enda vanur því að geta treyst fullorðnu fólki. Inni í vöruhúsinu bíða hans tveir ókunnugir karlmenn og fljótt kemur í ljós að fólkið hefur ekkert gott í huga. Í sameiningu nauðgar það drengnum, karlarnir tveir og konan. Setja hann að því búnu aftur út á götu. Barnæskunni fátækari.

Sævar Þór Jónsson sagði ekki nokkrum manni frá þessari skelfilegu lífsreynslu, ekki einu sinni foreldrum sínum. Byrgði hana þess í stað inni og fór næstu þrjá áratugi eða svo gegnum lífið á hnefanum. „Það eru tvær leiðir í þessari stöðu; að takast á við málið eða ýta því frá sér. Ég valdi seinni kostinn. Gróf mig niður. Og barði frá mér. Ég hvorki gat né vildi takast á við þetta,“ segir hann nú, þar sem við sitjum á skrifstofu hans í Sundagörðum, 33 árum síðar.

Við þegjum um stund. Ég horfi út á sundin blá og eyjarnar og allt í einu hefur þetta stórkostlega útsýni ósjálfrátt látið á sjá. Það fellur á fegurstu hluti þegar sögur sem þessar eru sagðar.

Veit hver konan er

„Ég hef aldrei séð mennina aftur og hef ekki hugmynd um hverjir þeir eru eða hvað varð um þá,“ heldur Sævar áfram. „Konuna hitti ég hins vegar skömmu síðar og þá hafði hún aftur kynferðislega tilburði í frammi án þess að ganga eins langt og í fyrra skiptið. Ég veit hver þessi kona er; sá hana síðast bíða eftir strætó fyrir nokkrum árum. Þekkti hana undir eins. Um mig fór hrollur.“

Hratt seig á ógæfuhliðina hjá Sævari eftir ódæðið. „Það sá strax á mér, átta ára gömlum. Ég var á stöðugum hlaupum undan þessu áfalli. Þú veist hvernig þetta er í teiknimyndunum; fígúran hleypur og hleypur og alltaf eltir skugginn. Þannig leið mér. Ég var erfitt barn og treysti engum, hvorki börnum né fullorðnum. Ég þróaði með mér slæmar hugsanir og alls konar kæki, svo sem sjálfsskaða sem fylgdi mér langt fram á fullorðinsár. Ég hafði ríka þörf fyrir að refsa sjálfum mér – enda fannst mér ég lengi bera ábyrgð á því sem gerðist. Mér skilst að það séu ekki óalgeng viðbrögð fórnarlamba í málum sem þessum. Það er furðuleg tilfinning, þessi sektarkennd þolandans. Lúmsk en yfirþyrmandi og mér gekk illa að átta mig á henni. Tilfinningalíf mitt varð mjög flókið. Þótt maður eigi enga sök fer einhver mekanismi í gang sem gerir það að verkum að maður hugsar þetta í grunninn rangt og verður fullur af skömm og reiði. Þess vegna réðst ég á sjálfan mig. Það var þrautaganga að byggja upp sjálfsmyndina og komast gegnum lífið.“

Sævar Þór þegar hann var fimm ára gamall.
Sævar Þór þegar hann var fimm ára gamall. Ljósmynd/Aðsend

Skrifaði foreldrum sínum bréf

– Reyndirðu aldrei að tala um þetta, ekki einu sinni við foreldra þína?
„Ég reyndi einu sinni að segja mömmu frá þessu. Ég var að fara að sofa og hún fann að eitthvað var að og gekk á mig. Ég var að því kominn að opna mig fyrir henni en guggnaði á því. Það kom á mömmu þegar ég fór að gráta en hún fékk ekkert upp úr mér. Raunar var það fyrst fyrir tveimur árum að ég öðlaðist kjark til að segja foreldrum mínum frá þessu; skrifaði þeim bréf, þar sem ég treysti mér ekki til að tala um þetta við þau augliti til auglitis. Þau vildu strax vita hverjir hefðu verið þarna að verki en ég hef ekki ennþá rætt þann hluta málsins við þau.“

Þegar Sævar er misnotaður, um miðjan níunda áratuginn, er umræðan um kynferðisbrot gegn börnum lítil sem engin í samfélaginu. Brot Steingríms Njálssonar höfðu að vísu ratað í fjölmiðla og Sævar minnist þess að hafa verið varaður við honum. Á heildina litið átti umræðan um brot sem þessi þó eftir að taka út mikinn þroska. Þögnin ríkti.
„Á þessum tíma áttu börn að vera hrein og snyrtilega til fara, fá að borða og mæta á réttum tíma í skólann. Aldrei var rætt um tilfinningar,“ segir hann.

Eftir á að hyggja telur Sævar viðbrögð sín ekkert óeðlileg; barn hafi engar forsendur til að skilja hvað átti sér stað í vöruhúsinu. „Það gerist ekki fyrr en maður fullorðnast og þá eru aðstæður breyttar.“

Einangraði sig meira og meira

Hluti af vandanum var skömmin. Sævar vildi ekki vera kenndur við mál af þessu tagi. „Mér leið eins og ég væri skemmdur og fólk myndi finna á mér snöggan blett og jafnvel ekki treysta mér lengur kæmist það að þessu. Sérstaklega eftir að ég byrjaði í lögmennskunni og fólk fór að stóla á mig. Svona voru ranghugmyndirnar miklar.“

Margt breyttist eftir að Sævar var misnotaður. Á þeim tíma átti hann góða vinkonu en fljótlega eftir þetta var sú vinátta búin. „Sem barn einangraði ég mig alltaf meira og meira og gerði mér upp veikindi til að sleppa við skólann. Var svo að segja vinalaus á löngum köflum. Mér leið illa innan um fólk og var hræddur við ókunnuga. Ég var stöðugt á varðbergi.“

Þegar hegðunarvandinn var mestur fór móðir Sævars með hann til barnalæknis. „Ætli ég hafi ekki verið tólf eða þrettán ára. Læknirinn gekk á mig og spurði meðal annars hvort einhver hefði gert mér eitthvað og hvers vegna ég væri að skaða mig. Ég skildi ekki hvað hann var að fara. Læknirinn gaf mér einhverjar töflur en að öðru leyti var þessu ekki fylgt eftir. Og áfram hélt ég á hnefanum. Ég hafði þróað með mér mikla vörn og eftir á að hyggja var ég ótrúlega sterkur miðað við aldur.“

Ryðgaður bíll í garðinum

Einn vin átti Sævar á þessum árum sem hann treysti upp að vissu marki, þó ekki fyrir leyndarmálinu mikla. „Það bjargaði mér á margan hátt að geta talað við hann. Við vorum eins og bræður og ég var logandi hræddur við að missa hann. Haldreipi mitt í lífinu. Seinna flutti hann úr hverfinu og við misstum þráðinn en höfum náð saman aftur síðan. Ég er þessum æskuvini mínum afar þakklátur.“

Á unglingsárum tók við mikil áfengisdrykkja og andlegir erfiðleikar. „Þegar maður fullorðnast myndast skel eða hjúpur utan um áfall eins og það sem ég varð fyrir. Við getum líkt þessu við að vera með gamlan ryðgaðan bíl í garðinum sem enginn hefur rænu á að draga í burtu.“

Lengi vel gekk Sævari illa í skóla enda átti hann erfitt með að einbeita sér. „Metnaðurinn hélt mér samt gangandi. Ég var staðráðinn í að standa mig og sýna heiminum að ég myndi ekki bugast. Ég læt ekki halda mér niðri, var ég vanur að segja við sjálfan mig. Síðan hef ég alltaf verið svo lánsamur að hafa kynnst góðu fólki sem hefur verið mér innan handar á lífsbrautinni.“

Inn í þrautir Sævars á þessum árum fléttuðust efasemdir um kynhneigðina. „Ég var mjög ósáttur við mínar kenndir og vildi ekki viðurkenna fyrir sjálfum mér, hvað þá öðrum, að ég væri samkynhneigður. Margar spurningar vöknuðu og til að byrja með gat ég ekki útilokað þann möguleika að misnotkunin sem ég sætti í æsku hefði gert mig samkynhneigðan. Fáránleg pæling en eftir öðru á þessum tíma. Það var þungur kross að bera. HIV-umræðan var líka í algleymingi og maður var smeykur við smit.“

Faldi samkynhneigðina

Sævar var nítján ára þegar hann kom út úr skápnum gagnvart foreldrum sínum og fjölskyldu og var strax vel tekið. „Mamma og pabbi áttu samkynhneigðan vin og voru alveg fordómalaus. Eins systkini mín tvö sem eru sjö og níu árum eldri en ég. Samt vildi ég ekki tala um þetta og faldi lengi vel að ég væri í sambandi með öðrum karlmanni. Mér var reglulega boðið hingað og þangað en mætti alltaf án maka. Vandamálið var með öðrum orðum ég en ekki samfélagið í kringum mig. Þetta varð vítahringur. Á þessum tíma var ég ekki bara að rogast með djöfla fortíðarinnar, heldur líka kynhneigðina og sjálfsmyndina.“

Hann rifjar upp sögu í þessu sambandi. „Ég hafði farið í sumarbústað ásamt kærasta mínum og vinnufélagi kom óvænt í heimsókn ásamt eiginkonu sinni. Úr varð að þau borðuðu með okkur og er leið á kvöldið spurði kona vinnufélaga míns hvort við værum saman, ég og þessi maður. Mér fannst spurningin gríðarlega óþægileg enda hafði ég falið þetta svo vel að ég hafði aldrei lent í þessari aðstöðu áður. Það var mjög erfitt að segja sannleikann og viðurkenna þetta en ég gerði það eigi að síður. Og það var ákveðinn léttir. Þegar ég hugsa um þetta í dag er það auðvitað meinfyndið en svona var staðan – enginn mátti vita að ég væri samkynhneigður.“

Missti góðan vin

Á unglingsárunum eignaðist Sævar góðan vin í sumarvinnu hjá Granda. „Þetta var skemmtilegur og frískur strákur og við náðum góðri tengingu. Djömmuðum mikið saman og það var gott að tala við hann. Hann var gagnkynhneigður sjálfur en ég trúði honum fyrir því að ég væri samkynhneigður. Við gátum rætt um allt milli himins og jarðar; urðum sálufélagar um stund. Það var því mikið áfall þegar ég fékk símhringingu einn morguninn og mér tilkynnt að hann hefði svipt sig lífi. Mögulega sá maður sem ég þekkti sem var ólíklegastur til að fremja slíkan verknað. Svona getur lífið komið manni í opna skjöldu.“

Sævar lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 1999 og hóf í framhaldinu nám í hagfræði við Háskóla Íslands, fyrir hvatningu vinar sem hann hafði eignast á þeim tíma. „Vinur minn sá að ég hafði hæfileika á því sviði og dró mig í námið. Hann sá líka að ekki var allt með felldu hjá mér og langaði að ræða það við mig. Þetta ýtti við mér en ég var einfaldlega ekki tilbúinn að lýsa reynslu minni fyrir honum á þessum tíma. Ég hefði betur gert það, þá væri ég löngu búinn að vinna úr mínum málum. En það er gott að vera vitur eftir á.“

Hefur ríka réttlætiskennd

Hann fann sig ekki sem skyldi í hagfræðinni og söðlaði því um. Og það var stórt skref fyrir hlédrægan og félagsfælinn ungan mann að skrá sig í laganám við Háskólann í Reykjavík. „Ég hef alltaf haft ríka réttlætiskennd og langað að berjast fyrir aðra. Þess vegna einhenti ég mér í laganámið. Ég fann mig strax í náminu og gekk vel enda þótt ég væri ekki sterkur félagslega til að byrja með. Það breyttist með tímanum og ég tók meðal annars þátt í að stofna Félag laganema við HR. Í mér býr frumkvöðull og drift og það hefur alltaf verið minn styrkur að láta hlutina gerast. Ég geng í verkin.“ 

Sævar efldist ekki bara félagslega í laganáminu; hann varð ástfanginn af einum skólafélaga sínum, Lárusi Sigurði Lárussyni, og hafa þeir verið par síðan. Giftu sig fyrir átta árum.
Sævar lauk BA-prófi í lögfræði árið 2005 og ML-prófi tveimur árum síðar. Lögmannsréttindi hlaut hann árið 2010. Hann hóf störf hjá Skattstjóranum í Reykjavík árið 2006 og vann sig upp í deildarstjóra lögfræði- og úrskurðardeildar en því starfi gegndi hann frá 2007 til 2009. Árið 2009 stofnaði hann ásamt fleirum lögmannsstofuna Lagarök og frá 2013 hefur hann verið einn eigenda lögmannsstofunnar Lögmenn Sundagörðum.

Hentaði vel að vera frontur

Sævar segir lögmannsstarfið hafa hjálpað sér mikið í lífinu. „Ég hef alltaf verið metnaðargjarn í vinnu. Vil standa mig. Hagsmunagæsla á vel við mig og ég er svo kappsamur að ég vil vinna öll mál. Lögmennskan hjálpaði mér líka að gleyma mér yfir vandræðum annarra. Meðan ég lagði allt í sölurnar fyrir umbjóðendur mína þurfti ég ekki að hugsa um sjálfan mig. Þeirra hagsmunir gengu fyrir. Lögmaður er í eðli sínu frontur fyrir annað fólk og það hentaði mér alveg prýðilega.“

Með lögmannsstarfinu hefur Sævar sett á laggirnar sprotafyrirtæki, setið í stjórnum fyrirtækja og tekið þátt í pólitísku starfi. „Ég hef gaman af því að vera í skapandi umhverfi,“ segir hann. 

Kynhneigðin hélt áfram að þvælast fyrir Sævari og hann kostaði kapps um að halda henni leyndri. „Fyrirmyndir mínar úr lögfræðinni voru eldri menn, grjótharðir jaxlar sem létu sér ekkert fyrir brjósti brenna. Þannig vildi ég vera sjálfur. Kæmist fólk að því að ég væri samkynhneigður myndi það örugglega draga þá ályktun að ég væri ekki nægilega harður. Það mátti alls ekki gerast og þess vegna var ekkert annað að gera í stöðunni en að fela kynhneigðina. Það var ekki fyrr en fyrir um átta árum að ég sætti mig endanlega við kynhneigð mína og hætti þessum leik. Það var mikið gæfuspor.“

„Maður nær aldrei almennilegu jafnvægi í lífinu hafi maður ekki …
„Maður nær aldrei almennilegu jafnvægi í lífinu hafi maður ekki gert upp við fortíðina. Maður nær heldur ekki fram sínum markmiðum sem faðir, maki, vinur og lögmaður. Nær ekki að vera 100% til staðar,“ segir Sævar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilja ekki allir fara í drag

Það getur verið þungur róður að berjast við staðalmyndir, rétt eins og vindmyllur, og Sævar bendir á, að samkynhneigðir karlmenn séu eins misjafnir og þeir eru margir. „Sjálfur hef ég aldrei passað almennilega inn í samfélag samkynhneigðra, ef svo má að orði komast, vegna þess að ég fell illa að staðalmyndinni. Það eru ekki allir samkynhneigðir karlmenn kvenlegir. Það vilja heldur ekki allir samkynhneigðir karlmenn fara í drag. Það er gömul klisja og slitin sem bæði samfélagið í heild og samfélag samkynhneigðra hafa verið dugleg að viðhalda. Tökum Pál Óskar sem dæmi. Hann er frábær fyrirmynd en það breytir ekki því að það eru ekki allir samkynhneigðir menn eins og hann. Samtökin 78 hafa unnið gríðarlega gott starf í þágu mannréttinda okkar samkynhneigðra en þau hafa alls ekki verið nógu dugleg að brjóta niður þessar staðalmyndir. Og þar eru samtökin á villigötum. Hvað á það til dæmis að þýða að taka inn hóp fólks með blæti? [BDSM, innskot blm.] Hvað koma slíkar þarfir kynhneigðinni við? Ég hef ekki legið á þessari skoðun minni og hef fyrir vikið verið gagnrýndur harðlega á vettvangi samtakanna. Hef til dæmis verið sagður íhaldspúki í einhverju leikriti sem þykist vera streit.“

– Hefur þú fundið fyrir fordómum vegna kynhneigðar þinnar?

„Já, það hef ég gert. Eftir að við tókum drenginn okkar að okkur fórum við Lárus einu sinni í blaðaviðtal. Í framhaldinu barst okkur nafnlaust bréf, þar sem stóð að við værum kynvillingar og myndum allir fara beinustu leið til helvítis. Það hefur líka verið skotið á mig í lögmennskunni; kynhneigð minni blandað inn í mál. Þetta hefur ekki gerst oft en þegar það gerist verð ég óvægnari sjálfur. Stíg fast niður á móti og verð grimmari en ella. Ég get orðið heiftugur, sem mér þykir alla jafna ekki gott, en stundum þarf maður að svara fyrir sig – fullum hálsi. Sem betur fer eru fordómar af þessu tagi sjaldgæfir. En þeir eru ennþá fyrir hendi.“

Lífið er ekki bara vinna

Að því kom að Sævar áttaði sig á því að lífið er ekki bara vinna. „Það er eins og lífsklukkan kalli á eitthvert jafnvægi í lífinu. Ég vann og vann og tók mér aldrei frí. Ég var alltaf til staðar fyrir mína umbjóðendur og sá ekkert athugavert við það að svara tölvupóstum um miðjar nætur. Ég var að rústa hjónabandinu. Að því kom að ég þurfti að spyrja mig þessarar áleitnu spurningar: Hvað ætlar þú að gera við þitt líf? Bara vinna?“

Svo var það gamli ógeðfelldi skugginn. Hann var enn í humátt á eftir Sævari. Tvennt varð til þess að hann fór að vinna í tilfinningum sínum. Fortíð sinni.

Annars vegar urðu vatnaskil í lífi Sævars og Lárusar, eiginmanns hans, þegar þeim barst símtal á síðkvöldi 18. desember 2013. Þar kom fram að þeim stæði til boða að taka að sér þriggja ára gamlan dreng. Móðir hans, sem var frá Litháen, hafði svipt sig lífi hér á landi skömmu áður og ekkert var vitað um föðurinn. „Okkur var boðið að hitta drenginn strax morguninn eftir á barnaheimili í Laugarnesinu með það fyrir augum að við tækjum hann að okkur. Við þurftum því að taka ákvörðun strax og þar sem okkur fannst við vera tilbúnir létum við slag standa. Drengurinn hafði að vonum átt erfitt uppdráttar, var vanræktur og sárvantaði heimili, ást og umhyggju. Hann bræddi okkur strax þar sem hann var brosmildur að leik við starfsmann barnaheimilisins. Maður klökknaði.“

Lenti á vegg

Andri Jón Lárusson Sævarsson hefur haft djúpstæð áhrif á föður sinn en til að byrja með var Sævar alls ekki sannfærður um að hann réði við hlutverkið – að bera ábyrgð á barni. „Við Lárus höfðum farið á námskeið og töldum okkur vera ágætlega undirbúna þegar við fengum drenginn. Þegar hann var síðan kominn inn á heimilið lenti ég hins vegar á vegg. Ég kem til með að hafa mótandi áhrif á þetta barn! hugsaði ég með mér. Í því er fólgin gríðarleg ábyrgð sem ég vissi ekki hvort ég myndi rísa undir. Lárus var hins vegar eins og klettur við hliðina á mér og dró mig áfram. Án hans hefði þetta aldrei gengið upp.“

Þetta nýja fjölskyldumynstur knúði á um uppgjör við fortíðina. „Til að ala son minn upp þarf ég að vera heilsteyptur karakter. Eigi hann að vera ærlegur og opinn gagnvart mér þarf ég að geta verið það á móti. Þess vegna þurfti ég að vinna í mínum málum og tryggja að ég yrði ekki röng fyrirmynd.“

Hin ástæðan fyrir því að Sævar fór að vinna í sínum málum var að skjólstæðingur leitaði til hans. Ungur maður sem orðið hafði fyrir kynferðislegri misnotkun sem barn. „Málið vakti strax áhuga minn, var sláandi. Ég stóð með drengnum og undirbjó málið vel enda er ég alltaf 100% á bak við mína skjólstæðinga.“

Áhrifin af þeirri vinnu urðu á hinn bóginn ekki bara fagleg, heldur einnig persónuleg. „Við skýrslutöku hjá lögreglu fór hann að lýsa misnotkuninni sem hann sætti og við það vöknuðu hjá mér gróteskar minningar úr eigin bernsku. Ég man eftir að hafa setið þarna og horft á hann: Rosalega er hann duglegur að stíga svona fram og tala um þetta. Það kom róti á mínar eigin tilfinningar.“

Ríghélt í ermina á honum

Sjálfsskoðunin leiddi til þess að Sævar hætti að drekka árið 2017 og segir hann það hafa greitt fyrir ferlinu. Hann fór í viðtalsmeðferð, ekki hefðbundna áfengismeðferð. „Eftir á að hyggja var ég mjög illa settur. Var farinn að drekka ótæpilega. Ég áttaði mig bara ekki á því. Vann bara og vann.“

Uppgjörið hefur gjörbreytt lífi Sævars. „Maður nær aldrei almennilegu jafnvægi í lífinu hafi maður ekki gert upp við fortíðina. Maður nær heldur ekki fram sínum markmiðum sem faðir, maki, vinur og lögmaður. Nær ekki að vera 100% til staðar. Gegnum tíðina var alltaf lítill átta ára gamall logandi hræddur strákur við hlið mér – sem ríghélt í ermina á mér. Og ég hafði aldrei burði til að taka utan um hann, hugga hann og segja honum að ekkert væri að óttast. Þess í stað ýtti ég honum bara frá mér.“

– Er litli drengurinn horfinn í dag?

„Nei, hann mun fylgja mér alla tíð. En í stað þess að hann hangi í mér, þá leiðumst við núna í gegnum lífið.“

– Hvernig hugsarðu til fólksins sem misnotaði þig?

„Ég er búinn að fyrirgefa því. Í dag er hvorki til hatur né beiskja í mér. Og það sem hjálpaði mér mest var að fyrirgefa. Fyrirgefningin er ekki síður mikilvægt atriði á þessari vegferð en uppgjörið sjálft. Væri ég ennþá fullur af reiði væri ég ekki á góðum stað í lífinu og gæti örugglega ekki sinnt mínu starfi og verið góður maki og faðir. Ég var svo lánsamur að hafa yndislegar eldri konur í kringum mig þegar ég var að vaxa úr grasi og þær kenndu mér að fátt væri eins mikilvægt í lífinu og fyrirgefningin.“

Trúin veitti styrk

– Þetta hljómar eins og þú sért trúaður?

„Já, ég er það og hef alltaf verið. Trúin hefur hjálpað mér mikið í þessu uppgjöri. Hún veitir manni styrk.“
Sá styrkur kemur þó ekki frá íslensku þjóðkirkjunni. „Það er illa komið fyrir þjóðkirkjunni. Því miður. Hún á að vera griðastaður en þess í stað eru þar eilífar deilur. Þegar ég kom út úr skápnum ræddi ég við prest og án þess að gagnrýna mig beint lét hann í það skína að þetta skref væri óæskilegt. Ég ræddi líka við lækni og fékk svipuð skilaboð. Hann reyndi að telja mér hughvarf; ekki vegna þess að samkynhneigð væri synd heldur fyrir þær sakir að þetta þýddi að ég yrði útsettari fyrir sjúkdómum. Það er skondin afstaða, eftir á að hyggja.“

Eitt er að gera upp sín mál í ró og næði, annað að ræða þau á opinberum vettvangi eins og Sævar gerir hér. „Ég hef velt því vandlega fyrir mér í heilt ár hvort ég ætti að fara í blaðaviðtal út af þessu; hvort saga mín eigi erindi við þjóðina. Og niðurstaðan er sú að svo sé. Mér finnst ég þurfa að opna mig um þessa reynslu; þetta hefur hamlað mér alla tíð og partur af uppgjörinu er að tala opinskátt um þetta. Bæði er í því fólgin heilun fyrir mig og svo verður það vonandi öðrum, sem standa í sömu sporum og ég, hvatning til að taka á sínum málum og leggja drauga fortíðarinnar til hvílu.“

Það er ekki bara blaðaviðtal, Sævar er líka að skrifa bók sem byggist á lífsreynslu hans. „Það er partur af uppgjörinu. Þetta er skáldsaga sem byggist á þessari reynslu. Í raun er ég að segja sögu húss, þar sem íbúarnir hafa orðið fyrir miklum áföllum. Ég á og bý í húsi foreldra minna en auk þess sem kom fyrir mig bjó þar á undan okkur fólk sem missti son sinn. Ég hef unnið að þessari bók í nokkur ár og er langt kominn með hana.“

Setjast niður á hverjum degi

Sævar er á góðum stað í lífinu í dag; hefur ekki aðeins gert upp við fortíðina, heldur jafnframt fundið jafnvægi milli fjölskyldulífs og vinnu. „Mig langaði alltaf að eignast fjölskyldu og er óendanlega þakklátur fyrir að sá draumur hafi orðið að veruleika. Við erum mjög náin lítil fjölskylda og við Lárus leggjum mikið upp úr stöðugleika fyrir son okkar. Þrátt fyrir ungan aldur býr hann að mikilli lífsreynslu og þarf á öryggi og hlýju að halda. Okkur þykir mjög mikilvægt að setjast niður með honum á hverjum einasta degi og gefa honum tækifæri til að ræða við okkur á sínum forsendum. Andri er algjör fótboltastrákur – svell sem ég var ekki sterkur á fyrir en er allur að koma til. Get til dæmis sagt þér allt um rangstöðu.“

Hann hlær.

„Við eigum mjög vel skap saman, feðgarnir, erum báðir stríðnir og kappsamir og húmorinn liggur á áþekku sviði. Ég er þakklátur fyrir hverja einustu stund með syni mínum og samveran með honum hefur hjálpað mér að takast á við lífið á réttum forsendum,“ heldur hann áfram. „Og maður verður að nýta hvert augnablik, tíminn er svo fljótur að líða. Allt í einu er hann að verða níu ára.“

Sævar og Lárus hafa enn ekki fengið að ættleiða Andra Jón en hafa engar áhyggjur af framvindu þess máls. „Málið hefur dregist, af ástæðum sem óþarfi er að rekja hér, og við hefðum getað tekið þann slag en ákváðum að gera það ekki. Aðalatriðið er það að Andri er mjög ánægður og man ekki annað en að vera hjá okkur. Það kemur að því að við fáum að ættleiða hann með formlegum hætti. Við erum í góðu sambandi við ættingja hans í Litháen og hann hefur fengið að hitta það fólk. Það er svo undir honum sjálfum komið með hvaða hætti hann vill rækta þau tengsl í framtíðinni.“ 

Hvað vinnuna varðar kveðst Sævar sinna henni af kostgæfni áfram en velur þó verkefnin meira en hann gerði áður. „Eigum við ekki að orða þetta svona: Ég er hættur að svara tölvupóstum á nóttunni.“

Sævar Þór ásamt syni sínum, Andra Jóni Lárussyni Sævarssyni.
Sævar Þór ásamt syni sínum, Andra Jóni Lárussyni Sævarssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Núna á ég tvo pabba

– Veltir Andri því eitthvað fyrir sér hvers vegna hann á tvo pabba?

„Ekki þannig lagað. Hann hefur að vísu verið spurður að því í skólanum hvar mamma hans sé og svarar því til að hún sé dáin. Og núna á ég bara tvo pabba, segir hann og ekki þarf að ræða það frekar.“

Sjaldgæft er að samkynhneigð karlkyns pör hafi ættleitt barn eða komið inn í fósturkerfið á Íslandi, eins og Sævar og Lárus. Sjálfur er hann svolítið undrandi á þessu. „Ég held að þetta séu innan við tíu pör í það heila. Mín kenning er sú að vandinn liggi meira hjá samkynhneigðum sjálfum en samfélaginu. Þrátt fyrir bréfið leiðinlega sem ég gat um áðan held ég að fordómar gagnvart barnauppeldi samkynhneigðra séu hverfandi á Íslandi. Samkynhneigðir sjá þennan möguleika hins vegar ekki alltaf fyrir sér sjálfir. Ætli það séu ekki bara leifar frá þeim tíma þegar það var erfiðara að koma út úr skápnum. Menn áttu fullt í fangi með sjálfa sig og viðbrögðin í kringum sig og sáu ekki fyrir sér eðlilegt fjölskyldulíf, þar sem barn eða börn kæmu við sögu. Þessi möguleiki er þannig lagað nýtilkominn og vonandi komum við til með að sjá fleiri og fleiri samkynhneigð pör taka að sér börn. Það er fullt af börnum þarna úti sem þurfa að komast inn á gott heimili.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert