Tillögurnar langt undir væntingum

Vilhjálmur Birgisson. Mynd úr safni.
Vilhjálmur Birgisson. Mynd úr safni. mbl.is/Hari

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og annar varaformaður ASÍ, gekk út af fundi fjögurra ráðherra með forsetahópi ASÍ í Stjórnarráðinu nú um hádegið, en þar voru hópnum kynntar tillögur ríkisstjórnarinnar sem auðvelda áttu sættir milli aðila vinnumarkaðarins. Fréttablaðið greindi fyrst frá.

Í samtali við mbl.is segir Vilhjálmur að ástæðan fyrir því að hann hafi farið út sé einföld. „Ég brenn fyrir að hægt sé að rétta hag þeirra sem höllustum fæti standa. Þessar tillögur voru langt undir þeim væntingum,“ sagði hann og bætti við: „Ég gat ekki setið þarna inni lengur.“ Vilhjálmur segist að öðru leyti ekki getað tjáð sig um tillögurnar vegna trúnaðar.

Spurður um framhaldið segir Vilhjálmur: „Staðan er alvarleg.“

Ásamt Vilhjálmi sátu fundinn þau Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og varaforseti ASÍ.

Eftir fund þeirra með ríkisstjórninni komu Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og aðrir forystumenn samtakanna á fund með ráðherrum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert