Okrað á kokteilsósu og rauðlauk

Þórarinn Ævarsson framkvæmdastjóri IKEA hefur vakið mikla athygli.
Þórarinn Ævarsson framkvæmdastjóri IKEA hefur vakið mikla athygli. mbl.is/Árni Sæberg

Þórarinn Ævarsson framkvæmdastjóri IKEA hefur vakið mikla athygli á netmiðlum í dag fyrir erindi sitt á ráðstefnu Alþýðusambands Íslands í morgun, þar sem hann gagnrýndi harðlega verðlagningu sumra veitingastaða og bakaría. Hann segir að hér á landi megi víða sjá „yfirgengilega“ verðlagningu og það hafi valdið þvi að Íslendingar séu hættir að fara út að borða.

„Fingur­björg af kok­teil­sósu, sem allir vita að er í grunninn majónes og tómat­sósa, kostar allt að 300 krónur en kostnaðurinn er kannski 10 eða 15 krónur. Þetta þekkja allir sem fá sér ham­borgara,“ sagði Þórarinn við áheyrendur á ráðstefnunni sem fjallaði einmitt um hátt verðlag matvæla á Íslandi.

Hann nefndi fleiri dæmi og sagði meðal annars suma pítsustaði rukka allt að 600 krónur fyrir rauðlauk sem aukaálegg á pítsu, þegar kílóverðið væri undir 300 krónum þegar tekið væri tillit til rýrnunar.

Einnig væru bakaríin flest að rukka á bilinu 100-160 krónur fyrir rúnstykki, þegar hráefniskostnaðurinn væri á bilinu 3-6 krónur.

 

„Þetta er svo yfir­gengi­legt að það er úti­lokað að rétt­læta þetta,“ sagði Þórarinn meðal annars í áhugaverðu erindi sínu sem hefur farið víða í dag eftir að fjallað var um það á vef Ríkisútvarpsins í morgun.

Þórarinn fór yfir ýmsar dæmisögur úr eigin rekstri í gegnum tíðina, en áður en hann fór til IKEA var hann framkvæmdastjóri Domino‘s á Íslandi og fékk hugmyndina að Megavikunni, sem er orðin alþekkt hjá neytendum. Hann segist alltaf hafa horft til þess að auka söluna, frekar en að reyna að hámarka hagnaðinn með verðhækkunum.

Veitingastaður IKEA, „í hraunbreiðu í útjaðri borgarinnar“, er einn sá mest sótti á Íslandi. Það segir Þórarinn vera vegna þess lága verðs sem þar er boðið upp á. Hann sagðist vera með lága verðið „á heilanum“ og hvetur aðra veitingamenn til að stilla eigin verðlagningu í hóf.

„Í staðinn fyrir að upp­lifa sig hlunn­farinn myndi al­menningur kannski fara mun oftar út að borða. Fengi sér kannski kók í stað krana­vatns, bjór í stað kóks eða hvít­vín í stað bjórs. Leyfði sér kannski for­rétt, aðal­rétt og eftir­rétt, gengi að lokum út sáttur, lík­legur til að bæði mæla með staðnum og mæta síðar.“

Horfa má á erindi Þórarins hér að neðan, en í spilaranum hefst það eftir 55 mínútur sléttar.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert