Enga uppgjöf að finna í leitinni

Engar nýjar vísbendingar hafa borist varðandi hvarf Jóns Þrastar Jónssonar, en um helgina voru liðnar fimm vikur síðan hann hvarf í Dublin á Írlandi. Síðast sást til hans fyrir hádegi laugardaginn 9. febrúar, en hann lenti í borginni kvöldið áður.

Aðstandendur Jóns sendu ákall til írsku þjóðarinnar fyrir helgi að hafa augun opin og dreifa myndum af Jóni í þeirri von að nýjar upplýsingar kynnu að berast.

„Viðtökurnar hafa verið góðar, en það á eftir að ráðast hvort verði einhver sýnilegur árangur. Vonandi verður eitthvað nýtt að frétta í byrjun vikunnar, ég vona það. Þá ræðst kannski meira hvort eitthvað komi úr þessu átaki,“ segir Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar, um tilkynninguna sem send var út fyrir helgi. Fjölmiðlar ytra hafa verið duglegir að fjalla um málið.

Davíð segir að írska lögreglan vinni að því hörðum höndum að fara í gegnum þær vísbendingar sem hafa borist. Enn séu að berast ábendingar, auk þess sem Alþjóðalögreglan Interpol lýsti eftir Jóni í síðustu viku. 

„Það er engin uppgjafartónn þar allavega, sem er gott. Við erum mjög vel upplýst um stöðu mála. Nú er kannski minna að gerast en fyrst, en það er alltaf eitthvað. Við bíðum bara og sjáum,“ segir Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar Jónssonar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »