Gætu verið byrjuð að afnema skerðinguna

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, og Ásmundur Friðriksson, þingmaður …
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, og Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/​Hari

„Ég vek athygli á því að á sama tíma og Öryrkjabandalagið ætlar að fara í mál við ríkið vegna þessara ömurlegu skerðinga þá hafnaði Öryrkjabandalagið og þingmaðurinn þessari tillögu,“ sagði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins. Vísaði hann þar til ummæla sem Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, lét falla í ræðustól þingsins í gær.

Þar kallaði Guðmundur Ingi skerðingar á kjörum öryrkja upp á krónu á móti krónu „fjárhagslegt ofbeldi“ sem enn væri fyrir hendi tveimur árum eftir að eldri borgurum hefði verið sleppt úr því „fjárhagslega skerðingarofbeldi“. Spurði Guðmundur hvenær því „ólöglega fjárhagslega ofbeldi“ yrði hætt.

Ásmundur sagði að hann sæti með Guðmundi í samráðshópi um breytt framfærslukerfi almannatrygginga og 13. desember hefði verið lögð fram bókun í hópnum til þess að klára málið. Þar hefði verið kallað eftir því að 2,9 milljörðum á fjárlögum yrði varið til þess að styðja við nýtt framfærslukerfi almannatrygginga fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Samkvæmt bókuninni var því enn fremur beint til ríkisstjórnarinnar að á þessu ári yrði skerðing upp á krónu á móti krónu vegna sérstakrar uppbótar vegna framfærslu afnumin. Gera mætti ráð fyrir að í breyttu framfærslukerfi yrði bótaflokkurinn afnuminn með öllu og sameinaður öðrum bótaflokkum líkt og gert var í tilfelli ellilífeyrisþega í ársbyrjun 2017.

Þessu hefði Guðmundur, sem og formaður Öryrkjabandalagsins, hafnað. „Nú þegar, frá 1. janúar, hefðum við getað verið byrjuð að afnema krónu á móti krónu skerðingu og værum komin vel á veg vegna þess að sú aðgerð hefði kostað 1,4 milljarða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert