„Staðan er bara viðkvæm“

Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.
Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA. mbl.is/Hari

„Það er bara verið að reyna að finna einhverja lausn á þessu og það verður bara að koma í ljóst hvort það takist eða ekki. Staðan er bara viðkvæm.“

Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við mbl.is spurður um stöðuna í kjaraviðræðum félagsins, Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Grindavíkur, Landssambands íslenzkra verzlunarmanna og Framsýnar við Samtök atvinnulífsins, en fundur hefst í kjaradeilunni í húsakynnum ríkissáttasemjara klukkan 12.

Gert er ráð fyrir að fundurinn standi fram eftir degi og jafnvel fram á kvöld. Fundað var einnig í gær og dagana þar á undan. „Meðan menn eru að tala saman er það jákvætt, það er bara þannig,“ segir Vilhjálmur. Spurður hversu lengi hann telji að fundað verði í segir hann að það verði einfaldlega að koma í ljós.

Spurður hvað hann telur að það gæti tekið langan tíma að landa kjarasamningum ef það tekst segir Vilhjálmur að það gæti tekið einhverja daga. „Ég myndi halda það að það gæti tekið einhverja daga að klára þetta.“

Heimildir mbl.is í gær hermdu að kjarasamningar gætu legið fyrir fljótlega eftir helgi og jafnvel gæti svo farið að af því yrði í dag. Vilhjálmur telur þó ekki líklegt að það takist að klára málið í dag.

mbl.is//Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert