Tvö ár fyrir að nauðga skólasystur sinni

Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær karlmann á þrítugsaldri í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun. Hann var ákærður af saksóknara fyrir að hafa aðfaranótt 30. janúar 2016 haft samræði og önnur kynferðismök við konu án hennar samþykkis.

Konan greindi frá málavöxtum á þann hátt að hún og maðurinn hafi að kvöldi 29. janúar verið á skemmtistað ásamt nokkrum vinum. Hún hafi verið mjög drukkin og beðið manninn um að keyra sig heim. Hann hafi hins vegar skutlað vinum sínum heim og næsta sem konan man er að hún hafi staðið við dyrnar á íbúð mannsins.

Um alvarlegt brot að ræða

Segir í dómnum að konan hafi allt í einu legið nakin uppi í rúmi með manninn ofan á sér. Hún hafi sofnað aftur en vaknað reið um morguninn og skipað manninum að keyra sig heim. Þegar hún klæddi sig tók hún eftir því að nærbuxurnar voru allar í blóði.

Þegar hún kom í skólann á mánudeginum hafi vinir hennar spurt hvernig stefnumótið með manninum hefði verið. Maðurinn hafði þá sagt vinum þeirra að þau hefði verið á stefnumóti og hefðu farið heim og sofið saman. 

Konan sagði bestu vinkonu sinni þá hvað hefði gerst og vinkona hennar sagði henni að um alvarlegt brot hefði verið að ræða. Í bréfi sem konan skrifaði manninum sagðist hún eiga erfitt með að gleyma þessu og halda áfram og hefði illa treyst sér til að koma í skóla af hættu við að rekast á manninn á göngunum.

Samkvæmt samskiptum sem fylgdu bréfinu sendi konan manninum skilaboð í mars 2017 þar sem hún segist vilja segja honum hvað hefði gerst, ef hann væri búinn að gleyma því, og hvernig henni liði með það. Hann svarar skilaboðunum á þann hátt að hann viti ekki hvað hann eigi að segja annað en fyrirgefðu. 

Konan fór á lögreglustöð 8. júní 2017 til að tilkynna um kynferðisbrot og sendi lögreglu bréfið fimm dögum síðar. Þar var einnig að finna skjámyndir af samskiptum konunnar og mannsins frá því í mars.

Sagði að hún vildi „ríða“ honum

Maðurinn sagði að hann hefði boðist til að skutla konunni heim en með í för hafi einnig verið tveir vinir hans. Á leiðinni í bílnum hafi konan talað um hversu sætur hann væri og sagt að hún vildi „ríða“ honum. Þegar vinirnir hafi verið farnir úr bílnum hafi konan spurt hvort hún mætti koma heim með honum.

Hann segist hafa farið inn í stofu og ætlað að horfa á mynd þegar konan kallaði á hann úr svefnherberginu og byrjaði að draga niður um sig buxurnar. Hann hafi spurt hana hvort hún vildi hafa samfarir og hún svaraði því játandi.

Þau hafi hætt því þegar hann sá skyndilega blóð en konan hafi neitað því að hún væri á blæðingum. Hann skutlaði henni heim um morguninn en þá hafi þau ekki rætt mikið saman. Næstu daga hafi samskipti þeirra virkað venjuleg en þó þótti honum konan þögul. 

Maðurinn hafi síðan heyrt út undan sér að hann ætti að hafa nauðgað konunni og allir vinir hans hunsuðu hann. Vinkona þeirra beggja hafi ekki boðið honum í afmæli og sakað hann um siðblindu og maðurinn baðst afsökunar á því að konan hafi upplifað atvikið eins og hún gerði. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa gert neitt rangt.

Framburður konunnar trúverðugur

Dómur metur framburð konunnar trúverðugan. „Við mat á framburði ákærða er ekki unnt að líta fram hjá yfirlýsingum hans á Facebook þar sem hann biðst ítrekað afsökunar á framferði sínu umrætt sinn. Verða yfirlýsingar hans þar ekki skýrðar á annan hátt en þann að hann sé að biðjast afsökunar á því að hafa haft samræði við brotaþola þótt hún hefði verið svo ölvuð að hún hefði ekki getað spornað við samræðinu. Aðrar skýringar ákærða á þessum samskiptum eru ótrúverðugar að mati dómsins,“ segir í niðurstöðu dómsins.

Það sé hafið yfir allan skynsamlegan vafa að maðurinn hafi haft samræði og önnur kynferðismök við konuna, án samþykkis hennar, og notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar.

Maðurinn er dæmdur í tveggja ára fangelsi og gert að greiða konunni 1,6 milljónir króna í miskabætur auk vaxta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert