Foreldrar orðnir langþreyttir

Frá Grafarvogi.
Frá Grafarvogi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Haldinn verður íbúafundur í Staðahverfi í Reykjavík í kvöld þar sem fjallað verður um fyrirhugaða lokun grunnskóla hverfisins, Kelduskóla - Korpu, og þá fyrirætlan borgaryfirvalda að börn í hverfinu sæki grunnskólanám í Vættaskóla utan hverfisins.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá aðstandendum fundarins að íbúar Staðahverfis séu „orðnir langþreyttir á því að þurfa að berjast við borgaryfirvöld til þess eins að börnin okkar fái að stunda skólagöngu í sínu hverfi eins og deiliskipulag kveður á um“.

Samkvæmt upplýsingum frá aðstandendum fundarins hafa ellefu borgarfulltrúar boðað komi sína á hann. Borgaryfirvöld eru með til skoðunar að sameina fjóra grunnskóla í efri hluta Grafarvogs og leggja niður skólann í Staðahverfi sem fyrr segir.

Borgaryfirvöld telja að vegna fámennis í Kelduskóla - Korpu sé ekki hægt að halda úti þeim gæðum náms, kennslu og félagstenginga sem sviðið telji æskileg. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg er 61 nemandi í Kelduskóla - Korpu í 1.-7. bekk.

Fundurinn fer fram í Kelduskóla - Korpu og hefst klukkan 20:00.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert