Guðni fundaði með Pútín

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Vladimír Pútín Rússlandsforseti komu …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Vladimír Pútín Rússlandsforseti komu saman á fundi í Pétursborg í morgun. Ljósmynd/Facebook

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, átti fund með Vladimír Pútín, forseta Rússlands, í Pétursborg í morgun. Forsetarnir sækja báðir norðurslóðaráðstefnu, International Arctic Forum, sem hófst á mánudag. Fundinn sat einnig Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Íslenska sendiráðið í Rússlandi greinir stuttlega frá fundinum á Facebook-síðu sinni og vel virðist fara á með forsetunum. Guðni hefur vakið athygli fyrir vasklega framkomu á ráðstefnunni en í gær ávarpaði hann ráðstefnugesti á rússnesku sem vakti mikla lukku hjá Pútín sem tók í höndina á Guðna eftir ávarpið.

Dagskrá Guðna er þéttskipuð og fyrr í dag heimsótti hann Ríkisháskólann í Pétursborg þar sem hann átti fund með rektor áður en hann flutti fyrirlestur undir heitinu „“We all protest!” Diversity, critique and freedom as the essence of historical research.“

Fyrirlestur Guðna í háskólanum í Pétursborg var opinn öllum og …
Fyrirlestur Guðna í háskólanum í Pétursborg var opinn öllum og var hann vel sóttur. Ljósmynd/Facebook

Við háskólann er m.a. öflug norrænudeild sem stofnuð var að frumkvæði Míkhaíls Ívanovítsj Steblín-Kamenskíj árið 1958 en hann var mikilvirkur fræðimaður og þýðandi á vettvangi íslenskra fornbókmennta.

Síðar í dag mun forsetinn einnig hitta að máli forystufólk á sviði viðskipta milli Rússlands og Íslands.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert