Ölvaðar og neituðu að greiða reikninginn

mbl.is/Eggert

Nokkurt annríki var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag og þurfti lögregla m.a. að hafa afskipti af mjög ölvuðum konum á sextugsaldri sem neituðu að greiða reikning á veitingastað og manni sem stakk ölvaður af frá árekstri.

Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna þjófnaðar í verslun á Seltjarnarnesinu í hádeginu í dag. Starfsfólk verslunarinnar elti þjófinn uppi og náði að stöðva för hans í nálægum garði. Skilaði hann þá því sem stolið var aftur í verslunina og gekkst við brotinu við skýrslutöku lögreglu.

Það var svo á öðrum tímanum í dag sem starfsfólk í banka óska eftir aðstoð lögreglu í hverfi 105 vegna erlends karlmanns sem hafði framvísað fölsuðu vegabréfi. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu. Reyndist maðurinn vera eftirlýstur, en hann hafði látið sig hverfa þegar fylgja átti honum úr landi í fyrra. Er málið nú í rannsókn.

Á þriðja tímanum í dag barst lögreglu svo tilkynning um að vinnuvél hefði verið bakkað  á unga konu sem var á gangi eftir gangstétt. Konan, sem var með nokkra áverka var flutt með sjúkrabíl á slysadeild. Ökumaðurinn er hins vegar grunaður um að hafa ekið vinnuvélinni án þess að hafa til þess tilskilin réttindi.

Um hálffjögurleitið í dag barst síðan tilkynning um árekstur í Kópavoginum, en bílstjórinn hafði látið sig hverfa. Vitni töldu hann hafa verið ölvaðan og svo reyndist vera, því lögregla fann hann skömmu síðar ölvaðan heima hjá sér. Var maðurinn handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu.

Á fimmta tímanum var svo óskað aðstoðar lögreglu á veitingastað í miðborginni. Þar inni voru þá „mjög ölvaðar konur á sextugsaldri“, að því er segir í dagbók lögreglu, sem voru með almenn leiðindi og uppsteyt og neituðu að greiða reikninginn. Hann borguðu konurnar þó er lögregla kom á staðinn og gáfu upp persónuupplýsingar að kröfu lögreglu, en með miklum semingi þó. 

mbl.is