Varað við hvassviðri eða stormi

Vindaspá á landinu klukkan 15 í dag.
Vindaspá á landinu klukkan 15 í dag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Veðurstofan varar við hvassviðri eða stormi með rigningu sunnan- og vestanlands í dag. Geta vindhviður um tíma náð 35-40 m/s við fjöll. Hlýtt er á landinu og víða leysing og því auknar líkur á vatnavöxtum næstu daga, einkum suðaustanlands.

Litlar breytingar er að sjá á veðrinu næstu daga nema að eftir daginn í dag lægir nokkuð, segir í hugleiðingum veðurfræðings í morgun. Frá og með páskadegi benda spár hins vegar til þess að vindur halli sér til norðlægra átta með kólnandi veðri og ofankomu fyrir norðan en léttir til syðra. Búast má við að hiti fari aðeins yfir frostmark um landið sunnanvert að deginum „og væri það mikil viðbrigði fyrir jafnt fólk og skepnur sem og plöntur sem keppast þessa dagana að vakna úr vetrardvala,“ skrifar veðurfræðingurinn.

Hann segir að aðrar spár séu ekki eins eindregnar í að láta kólna með norðlægum áttum. Samt geri þær líka ráð fyrir kólnun og að úrkoma myndi þá verða slyddukenndari.

„Þetta skýrist allt saman þegar líður á vikuna,“ skrifar veðurfræðingurinn.

Veðurhorfur næstu daga:

Á miðvikudag:
Suðaustlæg átt, víða 8-15 m/s og rigning eða súld með köflum, einkum suðaustanlands, en lengst af þurrt norðaustan til. Hiti 6 til 11 stig. 

Á fimmtudag (skírdag):
Sunnan 8-15 m/s og talsverð rigning eða súld á framan af degi, úrkomumest á Suðausturlandi, en lægir síðan smám saman og dregur úr vætu. Lengst af úrkomulaust norðaustanlands. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast norðaustan til. 

Á föstudag (föstudaginn langa):
Áframhaldandi suðlæg átt og vætusamt, en þurrt að kalla norðan til. Hiti breytist lítið. 

Á laugardag:
Suðvestanstrekkingur með skúrum, en slydduéljum á stöku stað. Bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Kólnar í veðri. 

Á sunnudag (páskadag):
Líkur á að snúist smám saman til norðaustanáttar með éljum fyrir norðan og frystir allvíða um kvöldið. Léttir til syðra. 

Á mánudag (annan í páskum):
Útlit fyrir norðlæga átt með ofankomu um landið norðvestanvert og hita um frostmark. Bjartviðri syðra og hiti 2 til 6 stig yfir daginn.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert