Norðurstrandarleið opnuð 8. júní

Norðurstrandarleiðin á að kynna Norðurland sem einstakan áfangastað út frá …
Norðurstrandarleiðin á að kynna Norðurland sem einstakan áfangastað út frá hringveginum. Ljósmynd/Markaðsstofa Norðurlands

Norðurstrandarleið, eða Arctic Coast Way, verður formlega opnuð 8. júní en um er að ræða nýtt verkefni í ferðaþjónustu sem á að skapa nýtt aðdráttarafl á Norðurlandi og kynna landshlutann sem einstakan áfangastað.

Opnun leiðarinnar var formlega kynnt á vorráðstefnu Markaðsstofu Norðurlands á Húsavík í dag. Um er að ræða um 900 km leið meðfram Norðurströndinni, frá Hvammstanga við Húnaflóa í vestri til Bakkafjarðar í austri, en vegurinn liggur út frá hringveginum í gegnum 18 sveitarfélög og 21 þorp eða bæi.

Verkefnið er byggt á fyrirmyndum um ferðamannavegi sem þekktir eru víða erlendis og er ætlað að vekja athygli ferðamanna á áhugaverðum stöðum á leiðinni sem oft falla utan helstu ferðamannastaða. Auk þess verða tengingar með bát á þrjár eyjar, Drangey, Hrísey og Grímsey. Þá verður sérstök áhersla lögð á matarupplifun á leiðinni, svo eitthvað sé nefnt úr markaðskynningunni á verkefninu. 

Um nokkuð stórt svæði er að ræða, en því er skipt upp í þrjú þemu. Á Norðvesturlandi er áherslan lögð á söguna og sögusagnirnar. Í Eyjafirði og hluta Tröllaskaga er áhersla á sjávarþorpin og hefðirnar sem eru tengdar þeim. Þá verður áhersla á náttúruöflin á Norðausturlandi. Hugmyndin er að leiðin verði ekki alveg eins á sumrin og á veturna, þar sem nokkrir staðir gætu dottið út á veturna. 

Búið að GPS-merkja alla staði á leiðinni og unnið er í því að fá að koma upp vegmerkingum. Til þess að taka þátt í verkefninu þurfa ferðaþjónustuaðilar, sveitarfélög og þorpin á leiðinni að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að geta átt viðskipti undir skrásetta vörumerkinu Arctic Coast Way. Þau má sjá HÉR.

Dagur hafsins, 8. júní, sem haldinn er hátíðlegur um allan heim var valinn til formlegrar opnunar Norðurstrandarleiðarinnar. Þann dag verða fjölbreyttir viðburðir í boði í sveitarfélögunum sem taka þátt og klippt verður á borða við hvorn enda leiðarinnar þar sem ráðherrum hefur verið boðið að taka þátt.

Hægt verður að skoða Norðurstrandarleiðina á korti og sjá þá …
Hægt verður að skoða Norðurstrandarleiðina á korti og sjá þá merkta inn áhugaverða staði og nánari upplýsingar. Ljósmynd/Markaðsstofa Norðurlands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert