Hreindýrin bíða eftir boltanum

Tignarleg hreindýrin bíta gras og bíða eftir því að í …
Tignarleg hreindýrin bíta gras og bíða eftir því að í boltann sé sparkað. Ljósmynd/Ómar Bragi Stefánsson

Ómari Braga Stefánssyni, landsfulltrúa UMFÍ og framkvæmdastjóra móta UMFÍ, brá heldur betur í brún fyrr í dag þegar hann ók fram hjá knattspyrnuvellinum í Djúpavogi og sá þar hreindýrahjörð sem virtist bíða eftir að flautað væri til leiks. „Þetta var alveg magnað. Þetta voru einhver 20 hreindýr á vellinum. Það var eins og þau  væru að bíða í áhorfendastúkunni eftir fyrsta leik sumarsins,“  sagði Ómar. 

Ómar er um þessar mundir á ferð og flugi um Austurlandið að kynna Unglingalandsmót og Landsmót UMFÍ 50+ sem haldin verða á Höfn í Hornafirði og í Neskaupstað í sumar.

Ekkert óeðlilegt á seyði

Þó að Ómar hafi ekki búist við því að sjá heila hreindýrahjörð við völlinn í Djúpavogi sagði Hafdís Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Neista í Djúpavogi, þetta vera alvanalegt. Hreindýrin, og fleiri málleysingjar eins og rjúpur og gæsir, væru oft á vellinum. Þau færu jafnvel inn í garða hjá fólki og bitu bæði gras og tré. 

Hreindýrin geta þó ekki dvalið langdvölum á vellinum þar eystra þar sem knattspyrnusumarið fer senn að hefjast. „Við erum að gera okkur klár og búin að bera í völlinn og þess vegna þurfum við stundum að reka hreindýrin í burtu,“ sagði Hafdís.

Hafdís sagði hreindýrin alls engar mannafælur.
Hafdís sagði hreindýrin alls engar mannafælur. Ljósmynd/Ómar Bragi Stefánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert