Fimmtán Þristar á leiðinni til Reykjavíkur

Vélar af þessari tegund eru væntanlegar til Reykjavíkur næsta mánudagskvöld …
Vélar af þessari tegund eru væntanlegar til Reykjavíkur næsta mánudagskvöld eða þriðjudagsmorgun. Ljósmyndir/Daks over Normandy

Mikill viðbúnaður verður á Reykjavíkurflugvelli í næstu viku þegar þangað koma 15 flugvélar af gerðinni DC-3/C-47. Vélarnar munu leggja af stað frá Bandaríkjunum á sunnudag en áfangastaðurinn er Normandí í Frakklandi en þar fer fram athöfn 6. júní í tilefni þess að 75 ár eru þá liðin frá innrásinni í Normandí, sem markaði upphaf endiloka síðari heimsstyrjaldarinnar. Von er á vélunum til Reykjavíkur að kvöldi mánudagsins 20. maí eða að morgni daginn eftir, allt eftir því hvernig viðrar á leiðinni.

Fjölmargir aðilar vinna nú að undirbúningi fyrir komu vélanna, eins og Isavia, ACE FBO Flugþjónustan á Reykjavíkurflugvelli, Þristavinafélagið, AOPA á Íslandi (Félag flugmanna og flugvélaeigenda) og Skeljungur, en flugvélarnar þurfa gríðarlegt magn af eldsneyti, eða um 2.000 lítra hver um sig. Nálgast eldsneytismagnið helminginn af því sem einkaflugvélar nota árlega á Reykjavíkurflugvelli.

Unnið er að því að finna vélunum stæði á flugvellinum á meðan þær stoppa hér. ACE FBO Flugþjónustan vinnur að því, í samráði við Isavia, og meðal svæða sem koma til greina er neyðarflugbrautin svonefnda, sem hefur verið aflögð. Er til skoðunar að hafa vélarnar til sýnis fyrir almenning.

Var til skoðunar að senda Pál Sveinsson héðan

Leiðangurinn nefnist D-Day Squadron og talsmaður hans, Moreno Aquiari, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að lokaundirbúningi ferðarinnar miðaði vel. Verður leiðangurinn kynntur sérstaklega á blaðamannafundi vestan hafs í dag. Auk vélanna 15 sem hingað koma munu aðrar 15 vélar frá Evrópu sameinast leiðangrinum fyrir flugið yfir Ermarsundið til Normandí. Að sögn Aquiari tóku fimm þessara véla, sem lenda í Reykjavík, þátt í innrásinni í Normandí 6. júní 1944.

Tómas Dagur Helgason, formaður Þristavinafélagsins, man ekki til þess í seinni tíð að jafn margar vélar af þessari gerð hafi lent á Reykjavíkurflugvelli á einum degi.

Mun lending allra vélanna geta tekið 3-4 tíma því 10-15 mínútur líða á milli lendinga og svo þarf að taka tillit til annarrar flugumferðar á sama tíma. Tómas Dagur segir Þristavinafélagið hafa skoðað alvarlega þann möguleika að fljúga héðan á DC-3 vél félagsins, Páli Sveinssyni, til Normandí en ekki tókst að fjármagna þann leiðangur. Verið er að leggja lokahönd á að gera Pál kláran fyrir sumarið og stefnt að því að fljúga honum suður um helgina þannig að hann geti hitt systkini sín frá Bandaríkjunum eftir helgina. Páll hefur líkt og undanfarin ár verið í vetrardvala á Flugsafni Íslands á Akureyrarflugvelli.

800 DC-3 vélar tóku þátt í innrásinni fyrir 75 árum

Páll Sveinsson kom upphaflega til landsins í desember 1943 til flutninga fyrir bandaríska herinn á Keflavíkurflugvelli. Árið keypti 1946 keypti Flugfélag Íslands vélina til farþegaflugs og var notuð sem slík til fjölda ára, eða þar til Landgræðsla ríkisins fékk hana til afnota árið 1972 og var hún í landgræðsluflugi allt til ársins 2006. Þá fékk Þristavinafélagið Pál Sveinsson til varðveislu og hefur viðhaldið vélinni síðan.

Á D-deginum svonefnda fyrir 75 árum höfðu DC-vélar bandamanna mikilvægu hlutverki að gegna en um 800 flugvélar af gerðinni DC-3/C-47, stundum nefndar Dakotas eða Daks, flugu með um 24 þúsund fallhlífarhermenn yfir Normandí árla morguns 6. júní 1944. Sameinuðust þeir um 160 þúsund landgönguliðum til að ráðast gegn herliði Þjóðverja.

Vélarnar 15 leggja af stað frá Oxford á austurströnd Bandaríkjanna og fara sömu leið yfir N-Atlantshaf og farin var gjarnan á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar, leið sem nefndist á frummálinu Blue Spruce. Frá Oxford verður flogið til Goose Bay í Nýfundnalandi og gist eina nótt, þaðan til Narsarsuaq á Grænlandi, þá til Reykjavíkur, þar sem flotinn mun dvelja í tvo daga, og þaðan til Prestwick á vesturströnd Skotlands. Næst verður flogið á Duxford-flugvöll norður af Lundúnum en þar sameinast fleiri DC-vélar frá Englandi og meginlandi Evrópu dagana 1. og 2. júní áður en flotinn tekur lokaflugið yfir Ermarsundið til Normandí 5. júní.

Sjálf hátíðin í Normandí er frá 6.-9. júní nk. en margar vélanna munu einnig taka þátt í athöfn í Berlín í sumar í tilefni þess að 70 ár eru liðin frá lokum loftbrúarinnar til Berlínar, þegar Rússar lokuðu landleiðinni til Berlínar árin 1948-1949. En bandamenn hófu þá umfangsmikla loftflutninga með birgðir til borgarinnar, m.a. með DC-3 flugvélum.

Fréttin hefur verið uppfærð:

Í Morgunblaðinu í dag er talað um BIRK Flugþjónustuna sem einn þeirra aðila sem undirbúa komu vélanna til Reykjavíkurflugvallar. Það er eldra nafn og heitir fyrirtækið nú ACE FBO Flugþjónustan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »