Fæstir í bílbeltum

Rútuslysið varð skömmu eftir kl. 15 á fimmtudag. Alls voru …
Rútuslysið varð skömmu eftir kl. 15 á fimmtudag. Alls voru 32 kínverskir ferðamenn í rútunni auk ökumanns. Ljósmynd/Aðsend

Fæstir farþegar rútunnar sem valt á Suðurlandsvegi á fimmtudag voru í bílbeltum þegar slysið varð. Þetta hefur rannsókn lögreglu leitt í ljós, en tildrög slyssins liggja enn ekki fyrir.

Í gær lágu þrír enn á gjörgæsludeild Landspítalans og einn á bráðalegudeild, en Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, hafði ekki fengið nýjar upplýsingar um ástand hinna slösuðu þegar mbl.is sló á þráðinn til hans á öðrum tímanum í dag.

Þá liggja þrír farþeganna enn inni á Sjúkrahúsinu á Akureyri, en þrír voru útskrifaðir þaðan í gær.

Rútuslysið varð skömmu eftir kl. 15 á fimmtudag. Alls voru 32 kínverskir ferðamenn í rútunni auk ökumanns og var hópslysaáætlun sett af stað. Farþegar voru misalvarlega slasaðir, en þeir voru fluttir á þrjú mismunandi sjúkrahús til þess að dreifa álagi. Aðgerðir á vettvangi stóðu yfir til kl. 23 um kvöldið og stendur rannsókn á tildrögum slyssins yfir.

mbl.is