Þristar til sýnis í kvöld

Þristar á Reykjavíkurflugvelli verða til sýnis í kvöld.
Þristar á Reykjavíkurflugvelli verða til sýnis í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Fimm svo­kallaðar þrista­vél­ar, DC-3- eða C-47-flug­vél­ar frá Banda­ríkj­un­um, verða til sýnis á Reykjavíkurflugvelli í kvöld milli klukkan 18 og 20. Hægt er að komast að vélunum á stæðinu norðan við Loftleiðahótelið (byggingu Icelandair) um hlið á girðingunni þar sem fánaborg er sjáanleg.

Fjórar flugvélanna eru komnar til landsins og er von á fimmtu flugvélinni eftir tæplega klukkustund.

Allar voru vélarnar smíðaðar á árunum 1943 til 1945 og eru þær á leið frá Bandaríkjunum til Bretlands.

Leiðangur flugvélanna er í tilefni þess að í byrjun júní verða 75 ár liðin frá innrás Bandamanna í Normandi í síðari heimsstyrjöldinni verður efnt til athafnar þar og þessa atburðar minnst.

DC-3 flugvélar fluttu þá fallhlífahermenn frá Bretlandi yfir Ermarsund sem stukku út yfir Normandí til að taka þátt í innrásinni. Munu flugvélar þessarar gerðar frá Bandaríkjunum og Evrópulöndum taka þátt í athöfninni.

Flugmálafélag Íslands, Isavia, Þristavinafélagið og fyrirtæki sem annast þjónustu og afgreiðslu ferjuflugvéla á Reykjavíkurflugvelli hafa unnið saman að móttöku vélanna og aðstoða áhafnir þeirra eftir þörfum. Fulltrúar áhafnanna verða við vélarnar til að veita upplýsingar um leiðangurinn og vélarnar.

Sex Þristar til viðbótar eru væntanlegir til Reykjavíkur, tveir mögulega í kvöld en í síðasta lagi koma þær allar á morgun, miðvikudag.

Þristurinn Páll Sveinsson var einnig væntanlegur til Reykjavíkur eftir vetrarsetu sína í Flugsafni Íslands á Akureyri en ekki tókst að gera við bilun í tæka tíð til að fljúga vélinni suður.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert