Dæmdur fyrir brot gegn stjúpdætrum sínum

mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í síðustu viku karlmann í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir hegningar- og barnaverndarlagabrot. Brotin fólust í því að maðurinn beraði sig fyrir framan stjúpdætur sínar og fróaði sér svo þær sáu til.

Auk þess beraði hann kynfæri sín í reisn í stofu og sagði annarri stjúpdótturinni að horfa.

Önnur stjúpdóttir mannsins kærði hann í nóvember 2016 vegna kynferðisbrots. Tilefni kærunnar var að hún hafði vaknað degi áður við nakinn stjúpföðurinn í herberginu sínu að strjúka hana um lærið.

Hún sagði að maðurinn væri alltaf nakinn fyrir framan hana og að hann hefði byrjað á því þegar hún var 14 ára gömul. Kvaðst hún oft hafa orðið vitni að því þegar hann væri að bera vaselín á kynfærin í skrifstofuherbergi sínu, en einnig sagðist hún nokkrum sinnum hafa séð hann fróa sér í svefnherberginu og hefði hann þá hurðina opna þannig að hún sæi hann.

Byrjaði þegar hann fór að taka lyf

Hin systirin tók það fram í yfirheyrslu að stjúpfaðirinn væri haldinn parkinsonssjúkdómi og sagðist vita að sýniþörf væri algeng hjá slíkum sjúklingum. Kæmi það fyrir að hann væri ekki í nærbuxum þegar hann sæti í sófanum og væri limurinn þá stundum í reisn.

Hún sagðist þrisvar sinnum hafa gengið fram hjá svefnherberginu þar sem hurðin var opin og maðurinn lá og fróaði sér. Hún telur að þessi hegðun hafi byrjað þegar hann fór að taka lyf við parkinsonssjúkdómnum. Hún kvaðst einu sinni hafa orðið fyrir óviðeigandi snertingu af hálfu mannsins.

Móðir systranna sagðist ekki hafa orðið vitni að þeirri háttsemi sem maðurinn var sakaður um. Hann hefði þó viðurkennt að hann gengi um ber að neðan undir baðslopp og ætti það til að bera sig þannig að dætur hennar sæju til.

Hún hafi verið í afneitun vegna málsins en sambúð hennar og mannsins hafi lokað skömmu eftir að kæra var lögð fram á hendur manninum. 

Maðurinn hafi lofað henni bót og betrun þegar hún ræddi við hann. Það hafi ekki varað lengi en hann hefði aldrei berað sig gagnvart eigin dóttur eða sambýliskonu.

Framburður systranna trúverðugur

Við yfirheyrlu í desember 2017 kannaðist maðurinn ekki við þær sakir sem á hann voru bornar. Sama átti við fyrir dómi. Maðurinn kannaðist við að hafa stundum gleymt sér og staðið nakinn í herberginu þegar hann klæddi sig, en tók fram að hann hafi ekki haft neina þörf fyrir að aðrir sæju þá til hans.

Læknir, sem sérhæfir sig í heila- og taugasjúkdómum, sagði fyrir dómi að meiri líkur væru á röskun á hvatastjórnun ef vitsmunaleg skerðing væri einnig til staðar hjá sjúklingum sem tækju þau lyf. Í tilviki ákærða sagðist vitnið hvorki hafa merkt vitsmunalega skerðingu hjá honum né haft grunsemdir um aukaverkanir lyfjanna. Hins vegar taldi hann að mögulegt væri að skýra sýniþörf ákærða gagnvart stjúpdætrum sínum með áhrifum lyfjanna.

Samkvæmt niðurstöðu dóms er framburður systranna trúverðugur. Framferði hans þykir benda til þess að hann hafi ætlað sér að brjóta á stjúpdætrum sínum, enda liggi fyrir að hann hafi ekki viðhaft þessa hegðun gagnvart sambýliskonu sinni né eigin dóttur.

Maðurinn var dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða yngri stjúpdóttur sinni 700 þúsund krónur í miskabætur og allan sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert