Framlengingarsnúrur stóra vandamálið

Hleðslustöðvar eru öruggasti mátinn til að hlaða rafbílinn.
Hleðslustöðvar eru öruggasti mátinn til að hlaða rafbílinn. mbl.is/Valgarður

Nokkur nýleg dæmi eru um að óvarleg meðferð á framlengingarsnúrum við hleðslu rafbíla hafi valdið eldsvoða. Þetta kom fram í máli Vernharðs Guðnasonar, deild­ar­stjóra aðgerða hjá slökkviliðinu á höfuðborg­ar­svæðinu, á fundi um rafbílahleðslu sem haldinn var í húsakynnum Rafmenntar að Stórhöfða 27 í hádeginu.

Ljóst er að óvarleg notkun framlengingarsnúra við hleðslu rafbíla er meðal þess sem hvað mestri hættu getur valdið. Jóhann Ólafsson, fagstjóri rafmagnsöryggissviðs Mannvirkjastofnunar, lagði einnig sérstaka áherslu á að slíkt væri ekki gert, í máli sínu í dag. Þá nefndi hann einnig að venjulega heimilistengla ætti ekki að nota til hleðslu rafbíla. Mannvirkjastofnun mældi með iðnaðartenglum en þar til gerðar hleðslustöðvar væru vitanlega bestar. 

Næsta ómögulegt að slökkva í

Vernharð ræddi einnig um erfiðleika þess að slökkva eld sem kemur upp í rafbíl, ef eldurinn kemst í rafhlöðu bílsins. Ef það gerðist væri nánast sú ein leið fær að fjarlægja bílinn og slökkva í honum með því að hífa hann ofan í sundlaug. Þá nefndi hann að dæmi væru um að í brennandi rafhlöðum hefði kviknað aftur, 84 klukkustundum eftir að slökkt var í þeim.

Vernharð sagði þó að umræðan um rafbíla hefði í gegnum tíðina verið svolítið óttablandin og að á slíku væri ekki þörf. Slökkviliðið fagnaði aukinni rafbílavæðingu og sagði að engar rannsóknir hefðu sýnt fram á að af rafbílum stæði aukin eldhætta. Þvert á móti sagði Böðvar Tómasson, verkfræðingur og áhugamaður um rafbílamál, sem einnig tók til máls á fundinum, að tölur frá Bandaríkjunum bentu til þess að um sjö sinnum minni eldhætta stæði af rafbílum heldur en öðrum bílum. Eins og áður segir væri slökkviliðið almennt ánægt ef komið yrði á böndum á hleðslu rafbíla með framlengingarsnúrum eða viðlíka óöruggum búnaði. 

Spurður hvort eitthvað þyrfti að varast sérstaklega kæmi maður að umferðaróhappi þar sem rafbíll hefði átt í hlut sagði Vernharð stutta svarið vera nei. Þó að það væri mikil spenna væri rafhlaðan í bílnum það vel varin að það ætti ekki að þurfa að hafa auknar áhyggjur þótt rafbíll ætti í hlut. Hann vissi ekki um dæmi þar sem maður hefði fengið rafstuð við að aðstoða einhvern vegna umferðaróhapps í rafbíl. 

Íbúar fjölbýlishús í Stakkholti samþykktu einróma að setja tengingu fyrir …
Íbúar fjölbýlishús í Stakkholti samþykktu einróma að setja tengingu fyrir hleðslustöð við hvert stæði. Böðvar Tómasson verkfræðingur lagði áherslu á mikilvægi þess að hugsað væri til framtíðar í rafbílamálum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert