Þakklátur viðbrögðum stjórnvalda

Ríkislögreglustjóri er ánægður með viðbrögð ríkisstjórnarinnar við skýrslunni.
Ríkislögreglustjóri er ánægður með viðbrögð ríkisstjórnarinnar við skýrslunni. mbl.is/Eggert

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri er ánægður með viðbrögð ríkisstjórnarinnar við skýrslu embættisins um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi sem birtist í vikunni. Hann þakkar jafnframt þeim starfsmönnum sem unnu að skýrslunni. Þetta kemur fram í bréfi sem hann sendi starfsmönnum sínum í dag.

Dóms­málaráðherra og for­sæt­is­ráðherra brugðust við niður­stöðum skýrsl­unn­ar og fyr­ir­sjá­an­legri þróun þess­ara mála hér á landi með því að skipa sam­ráðshóp til að skil­greina nauðsyn­leg­ar aðgerðir, for­gangsraða þeim og fjár­magna. 

Í bréfinu bendir ríkislögreglustjóri á að embættið hafi verið í forystu lögreglu til að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi í á annan áratug. „Baráttan við skipulagða glæpastarfsemi nær yfir landamæri og er alheimsvandi. Nauðsynlegt er að stofnanir hér á landi eigi áfram traust og samhent samstarf á þessu sviði og við erlenda samstarfsaðila, ekki hvað síst Interpol og Europol.“ Segir í bréfinu. 

Hann bindur vonir við að áfram takist „eins vel til og þegar okkur tókst að koma í veg fyrir að skipulagðir mótorhjólaglæpahópar næðu sterkri fótfestu hér á landi.“ Í því samstarfi þakkar hann þáverandi dómsmálaráðherra sem var Björn Bjarnason.

Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri.
Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Hér fyrir neðan er bréfið í heild. 

Ágætu starfsmenn.

Mig langar til að þakka starfmönnum ríkislögreglustjóra sem unnu að gerð skýrslu greiningardeildar um skipulagða glæpastarfsemi.

Ríkislögreglustjóraembættið hefur verið í forystu lögreglu til að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi í á annan áratug. Óþarfi er að rekja þá sögu hér, hana þekkja allir.

Það er ánægjuefni hvernig ríkisstjórn Íslands brást við skýrslunni og hratt af stað vinnu við að mæta þeirri þróun mála sem skýrslan fjallar um með afdráttarlausum hætti.

Þá er sem fyrr ánægjulegt að lesa hvernig skýrslan hefur verið unnin í samvinnu við lögregluembættin og aðra samstarfsaðila. Baráttan við skipulagða glæpastarfsemi nær yfir landamæri og er alheimsvandi. Nauðsynlegt er að stofnanir hér á landi eigi áfram traust og samhent samstarf á þessu sviði og við erlenda samstarfsaðila, ekki hvað síst Interpol og Europol.

Þá er einnig ánægjulegt hvernig fjölmiðlar hafa flestir fjallað um skýrsluna með málefnalegum hætti. Ásgeir Karlsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn greiningardeildar á hrós skilið fyrir sinn þátt á þeim vettvangi.

Baráttan heldur áfram og vonandi tekst okkur eins vel til og þegar okkur tókst að koma í veg fyrir að skipulagðir mótorhjólaglæpahópar næðu sterkri fótfestu hér á landi. Þá skilaði samstaðan árangri og ekki hvað síst stuðningur þáverandi dómsmálaráðherra við ríkislögreglustjóra og lögregluna.

Með góðri kveðju á uppstigningardegi á Evrópufundi Interpol í Katowice Póllandi.

Haraldur

„Baráttan við skipulagða glæpastarfsemi nær yfir landamæri og er alheimsvandi.“ …
„Baráttan við skipulagða glæpastarfsemi nær yfir landamæri og er alheimsvandi.“ Þetta segir ríkislögreglustjóri. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is