Nara kærir íslenska ríkið til MDE

Nara Walker kvödd þegar hún hóf afplánun á Hólmsheiði.
Nara Walker kvödd þegar hún hóf afplánun á Hólmsheiði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nara Walker, áströlsk kona sem hlaut 18 mánaða dóm hér á landi fyrir að bíta hluta úr tungu eiginmanns síns, hefur kært íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Var kærunni skilað inn á miðvikudaginn.

Samkvæmt tilkynningu frá Nöru kemur fram að hún telji meint brot ríkisins varða við 3., 6., 8. og 14. grein sáttmálans. Helstu umkvörtunarefni eru að hún hafi ekki notið réttarverndar sem fórnarlamb heimilisofbeldis þar sem forsaga málsins hafi ekki verið skoðuð og því ekki fallist á að um sjálfsvörn hafi verið að ræða. Þá hafi hún verið álitin sek, en ekki saklaus uns sekt hennar hafi verið sönnuð og ekki verið kynnt réttarstaða sín á tilhlýðilegan máta. Auk þess hafi meðferð hennar verið vanvirðandi, sem meðal annars hafi lýst sér í því að henni hafi verið meinað að leita sér læknisaðstoðar vegna áverka sina. Þá hafi hún mætt mismunun með framangreindri meðferð, sem lýsir sér meðal annars í því að dómur hennar - erlendrar konu - sé þyngri en dómafordæmi eru um í sambærilegum málum.

Þá ætlar Nara að afhenda forseta Alþingis undirskriftir sem hún hefur safnað sér til stuðnings. Samkvæmt tilkynningunni telja þær 43 þúsund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert