Spara einn milljarð með bólusetningum

Almenn bólusetning hjá börnum á Íslandi gegn pneumókokkum hefur sparað íslensku samfélagi einn milljarð króna á fyrstu fimm árunum eftir að almennt var farið að bólusetja við bakteríunum. 

Almenn bólusetning hjá börnum gegn pneumókokkum hófst hér á landi 2011. Pneumókokkabakteríur geta valdið margvíslegum sýkingum eins og miðeyrnabólgu, kinnholubólgu, lungnabólgu og alvarlegum ífarandi sýkingum eins og blóðsýkingum og heilahimnubólgu. Þetta kemur fram í frétt á vef embættis landlæknis í gær. 

Í nýlegri doktorsgrein Elíasar Eyþórssonar (júní 2019) var sýnt fram á að bólusetningin hefði minnkað sýklalyfjanotkun hjá börnum um tæplega 6%, fækkað innlögnum barna á sjúkrahús vegna lungnabólgu um 20% og fækkað miðeyrnabólgum og alvarlegum ífarandi sýkingum hjá börnum marktækt. Kostnaðar-hagkvæmnisútreikningar fyrstu fimm árin eftir innleiðingu bóluefnisins sýndu sparnað fyrir íslenskt samfélag upp á tæplega 1 milljarð króna á verðlagi ársins 2015 (7.463.176 dollarar).

„Þessar niðurstöður sýna glöggt að bólusetningar eru ekki einungis áhrifaríkar til að koma í veg fyrir alvarlegar sýkingar heldur einnig eru þær afskaplega kostnaðarhagkvæmar,“ segir á vef embættis landlæknis.

Umfjöllun um doktorsverkefni Elíasar

Pneumókokkar (Streptococcus pneumoniae) eru bakteríur sem geta valdið alvarlegum og lífshættulegum sjúkdómum einkum hjá ungum börnum og fullorðnum einstaklingum yfir 60 ára. Bakterían finnst í slímhúðum í nefi og hálsi hjá frískum einstaklingum í öllum aldurshópum einkum ungum börnum án þess að valda sjúkdómseinkennum. Bakteríurnar geta tekið sig upp, dreift sér um líkamann og valdið sjúkdómum.

Algengustu sýkingar af völdum pneumókokka eru bráðar og þrálátar miðeyrnabólgur, kinnholusýkingar og lungnabólgur hjá ungum börnum. Hættulegustu sýkingarnar eru heilahimnubólga og blóðsýkingar sem geta komið fram sem aðskildir sjúkdómar eða samhliða og kallast þá ífarandi sýkingar. Í dag eru pneumókokkar algengasta orsök heilahimnubólgu af völdum baktería, segir meðal annars á vef embættis landlæknis.

Dánartíðni af völdum þessara sjúkdóma er um 10% hér á landi

Sjúkdómar af völdum pneumókokka hafa verið viðvarandi heilsufarsvandamál hér á landi. Svo virðist sem tíðni alvarlegra sýkinga af völdum þessara baktería sé hærri hér á landi en í mörgum nálægum löndum. Ífarandi pneumókokkasýkingar hafa verið nokkuð stöðugar sl. 10 ár en að jafnaði greinast um 50 einstaklingar á ári með alvarlega sýkingu, þar af eru um 10 börn undir 5 ára aldri og síðan eru það einkum fullorðnir einstaklingar sem komnir eru yfir sextugt sem sýkjast. Ífarandi sýkingar eru sjaldgæfar meðal barna og fullorðinna í öðrum aldurshópum. Eftir að almenn bólusetning gegn pneumókokkum var tekin inn í barnabólusetningar á árinu 2011 hefur ífarandi sýkingum hjá börnum fækkað. Dánartíðni af völdum þessara sjúkdóma er um 10% hér á landi.

Alls var tilkynnt um 31 smit af völdum pneumókokka í fyrra á Íslandi. Sýkingar af völdum pneumókokka koma oft í kjölfar kvefpesta eða flensu og líkjast einkennin því oft sýkingum af völdum annarra baktería eða veira.

Algengar sýkingar af völdum pneumókokka eru sýkingar í miðeyra, bólgur í kinnholum, í slímhúðum augna og lungnabólga. Einkenni heilahimnubólgu eða blóðsýkingar geta komið mjög snöggt með háum hita, hnakkastífleika, óróleika og sljóleika, í kjölfarið geta komið fram krampar, minnkuð meðvitund og lost. Þetta skal alltaf hafa í huga hjá börnum undir 3 ára aldri með óútskýrðan hita og áberandi veikindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert