Nýi Sólvangur opnaður í Hafnarfirði

Klippt á borðana við opnun Sólvangs, nýs hjúkrunarheimilis í Hafnarfirði.
Klippt á borðana við opnun Sólvangs, nýs hjúkrunarheimilis í Hafnarfirði. mbl.is/​Hari

Nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili sem leysir af hólmi gamla Sólvang í Hafnarfirði var formlega opnað við athöfn nú fyrr í dag. Fyrstu íbúarnir munu flytja inn í byrjun ágúst en gamli Sólvangur mun áfram gegna hlutverki í þágu aldraðra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

„Þetta er stór dagur fyrir Hafnfirðinga og nærsveitunga og gleðidagur fyrir okkur öll sem brennum fyrir bættri þjónustu og aðbúnaði fyrir aldraða“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við opnun heimilisins í dag.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var glöð í bragði í sólinni í …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var glöð í bragði í sólinni í Hafnarfirði í dag. mbl.is/​Hari

Nýi Sólvangur var byggður eftir svokallaðri leiguleið sem fól í sér að Hafnarfjarðarbær annaðist framkvæmdina að öllu leyti. Fjármögnun framkvæmdanna byggist á samningi milli ríkisins og bæjarfélagsins um greiðslur til fjörutíu ára.

Hlutdeild ríkisins svarar til 85% af heildarkostnaði á móti 15% hlutdeildar sveitarfélagins.

Sóltún öldrunarþjónusta ehf. mun annast rekstur nýja hjúkrunarheimilisins í samræmi við niðurstöðu útboðs Sjúkratrygginga Íslands.

Sólin skein skært á viðstadda.
Sólin skein skært á viðstadda. mbl.is/​Hari

Hjúkrunarrýmum fjölgar um 34

Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði óskuðu á síðasta ári eftir heimild heilbrigðisráðherra til að nýta húsnæði gamla Sólvangs undir 33 hjúkrunarrými til viðbótar þeim 60 sem verða í nýju byggingunni. Heilbrigðisráðherra veitti þá heimild þar sem erindið féll vel að áformum stjórnvalda um stórfellda uppbyggingu hjúkrunarrýma til ársins 2023.

„Við höfum um nokkurra ára skeið lagt á það áherslu að heildræn þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara í Hafnarfirði byggist upp á Sólvangssvæðinu,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar í tilkynningu og bætir við:

„Dagurinn í dag markar tímamót í þeirri framtíðarsýn. Dagdvöl aldraðra er nú starfandi á neðstu hæð gamla Sólvangs og húsnæðið er einnig tilvalið fyrir sjúkraþjálfun, félagsstarf eldri borgara og mötuneyti svo fátt eitt sé nefnt. Gamli Sólvangur mun áfram verða nýttur í þágu eldri borgara og áður en langt um líður verður ráðist í endurbætur á húsnæðinu. Það er mjög ánægjulegt að sjá áformin um öldrunarmiðstöð á þessu fallega svæði verða að veruleika og að Sólvangur hýsi til framtíðar ýmis konar faglega þjónustu og þjálfun við eldri borgara.“

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar. mbl.is/​Hari

Fjölgun sérhæfðra dagdvalarrýma

Þá hefur heilbrigðisráðherra veitt Hafnarfjarðarbæ rekstrarheimild fyrir tólf nýjum dagdvalarrýmum fyrir fólk með heilabilun. Sveitarfélagið mun útvega húsnæði fyrir reksturinn og ábyrgjast að þjónusta við notendur verði veitt á faglegum grunni í samræmi við þarfir fólks með alzheimer og aðra minnissjúkdóma. Leitað verður til Alzheimersamtakanna um að verða faglegur bakhjarl þjónustunnar.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist afar ánægð með að hafa getað orðið við ósk bæjarfélagsins um að auka þessa mikilvægu þjónustu, því þörfin sé brýn:

„Bætt heilbrigðisþjónusta við aldraða samhliða stórsókn í fjölgun hjúkrunar- og dagdvalarrýma er áherslumál sem ég hef sett í sérstakan forgang. Vinna við stefnumótun í málefnum fólks með heilabilun er komin vel á veg og það er alveg ljóst að fjölgun sérhæfðra dagdvalarrýma fyrir fólk með alzheimer og aðra minnissjúkdóma felur í sér mikla bót fyrir þennan sjúklingahóp og aðstandendur þeirra.“

Það var vel mætt á athöfnina fyrr í dag enda …
Það var vel mætt á athöfnina fyrr í dag enda tilefni til. mbl.is/​Hari

Í Hafnarfirði hefur verið rekin sértæk dagdvöl fyrir fólk með heilabilun frá árinu 2006 í Drafnarhúsi þar sem aðstaða er fyrir 22 einstaklinga. Bærinn hefur lagt til húsnæði en Alzheimersamtökin hafa séð um reksturinn. Með heimild ráðherra verða sérhæfð dagdvalarrými fyrir heilabilaða samtals 34 í Hafnarfjarðarbæ.

Drög að stefnu í málefnum einstaklinga með heilabilun voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda 24. júní síðastliðinn og rennur umsagnarfrestur út 1. september næstkomandi.

Allt var að sjálfsögðu fest á filmu.
Allt var að sjálfsögðu fest á filmu. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert