Mestu eldingar frá upphafi mælinga

Eldingar í útlöndum.
Eldingar í útlöndum. AFP

Þrumuveður næturinnar er það mesta frá því mælingar hófust. Á tæpum sólarhring, frá gærkvöldi og fram undir morgun, laust 1.800 eldingum niður á landi og landgrunni. Þórður Arason, eldingasérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að að jafnaði gerist það um einu sinni á ári að eldingafjöldi fari yfir 100 á sólarhring, en frá upphafi mælinga fyrir 20 árum hafi eldingafjöldi á sólarhring aldrei áður náð nema nokkrum hundruðum. Því sé ljóst að þrumuveðrið hafi verið það langstærsta síðan farið var að telja.

Skýringin er hitaveður síðustu daga, en sterkt lóðrétt hitauppstreymi skapar skilyrði til eldinga. Íslendingar eiga ekki að venjast eldingum, en mest er um þær í hitabeltinu auk þess sem þær eru tíðar í Mið-Evrópu og Bandaríkjunum. Eftir því sem norðar dregur lækkar eldingatíðni hins vegar skarpt.

Aðspurður segir Þórður einhvern möguleika á frekara þrumuveðri næstu daga, en ekkert í líkingu við það sem var í nótt. Hann brýnir fyrir fólki hið fornkveðna, að halda sig inni við í þrumuveðri, inni í bíl eða húsi, og forðast berangur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert