Sex gistu fangageymslur í Eyjum

Flestir skemmta sér fallega á þjóðhátíð, en einhverjir létu hnefana …
Flestir skemmta sér fallega á þjóðhátíð, en einhverjir létu hnefana tala í gærkvöldi. Mynd úr safni. mbl.is/Ófeigur

Sex þjóðhátíðargestir munu vakna í fangaklefa í Vestmannaeyjum í dag, en þeir voru færðir þangað ýmist vegna líkamsárása, fíkniefnamála eða ölvunar.

Alls hafa 12 fíkniefnamál komið upp í Heimaey frá því að fólk af fasta landinu tók að flykkjast þangað á fimmtudag, þar af eitt mál þar sem talið er að efni hafi verið ætluð til sölu.

„Miðað við fjölda þá held ég að þetta sé nú ekkert stóralvarlegt,“ segir Tryggvi Kr. Ólafsson lögreglufulltrúi í samtali við mbl.is. Hann segir að þær líkamsárásir sem tilkynntar voru í nótt hafi ekki verið stóralvarlegar, hann hafði hið minnsta ekki heyrt af neinum beinbrotum.

„Það var logn í dalnum og þoka reyndar yfir öllu. Töluverður fjöldi í brekkunni,“ segir Tryggvi, sem sagði eril hafa verið hjá lögreglu á þessu fyrsta kvöldi Þjóðhátíðar í Herjólfsdal.

Rólegt í höfuðborginni

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sagði að nóttin hefði verið róleg og að einungis þrír hefðu verið vistaðir í fangaklefum eftir nóttina. Nokkur mál komu upp vegna ölvunar og óláta í miðborginni

Þá voru nokkrir ýmist drukknir eða dópaðir undir stýri. Ein kona var stöðvuð í Fossvogshverfi þar sem hún var að tala í síma undir stýri. Hún reyndist undir áhrifum fíkniefna, án ökuréttinda og reyndi svo að gefa lögreglu upp vitlaust nafn.

Þá var maður handtekinn í Efra-Breiðholti, þar sem hann var ofurölvi inni á bar og neitaði að yfirgefa hann. Sá fékk að gista hjá lögreglu.

Fjöldi fólks á Akureyri en allir þægilegir

Á Akureyri er fjöldi fólks kominn saman og öll tjaldstæði þétt setin, samkvæmt lögreglu, en erfitt er að skjóta á fjölda gesta í bænum. Skemmtanalífið í nótt var með rólegara móti, bara eins og venjulegt föstudagskvöld.

Ástandið á öllum virtist bæði þægilegt og gott samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Enginn fékk að gista á lögreglustöðinni þar í bæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert