Dýralæknir á ný á Vestfjörðum

Dýralæknir tekur brátt til starfa á Vestfjörðum á ný.
Dýralæknir tekur brátt til starfa á Vestfjörðum á ný. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Dýralæknir tekur til starfa á Ísafirði 15. ágúst og starfar fram til 31. október. Frá 1. júlí hefur enginn dýralæknir verið starfandi í fimm sveit­ar­fé­lög­um á Vest­fjörðum eftir að dýralæknirinn Sig­ríður Inga Sig­ur­jóns­dótt­ir sagði upp þjónustusamningi sínum við Matvælastofnun.

MAST náði samkomulagi við Sigríði nýverið um að draga til baka uppsögn sína á þjónustusamningnum. Sigríður mun starfa samkvæmt gildandi þjónustusamningi sem rennur út 31. október en þá rennur samningurinn út ásamt níu öðrum þjónustusamningum dýralækna í dreifðum byggðum landsins. 

„Þetta er mjög ánægjulegt,“ segir Sigurborg Daðadóttir yfir­dýra­lækn­ir MAST við mbl.is. Hún segist jafnframt mjög fegin að vita til þess að dýraeigendur geti sótt þjónustu dýralæknis. 

Landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp um þjónustu dýralækna í dreifðum byggðum og vaktþjónustu dýralækna. Hópurinn hefur ekki verið formlega skipaður en frestur til tilnefninga í hópinn rann út 6. ágúst. 

Sigurborg vonast til að nefndin verði skipuð sem fyrst þar sem ljóst er að talsverð vinna bíði hennar við endurskoðun á þjónustu dýralækna í dreifðum byggðum. Starfshópurinn á að skila tillögum í október.

MAST auglýsir jafnframt eftir sjálfstætt starfandi dýralæknum til að taka að sér almenna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu í dreifðum byggðum landsins á níu svæðum á landinu. Samningurinn er gerður til 5 ára í senn og er með „endurskoðunarákvæði með vísan til breytinga sem kunna að verða gerðar í kjölfar niðurstöðu starfshóps ráðherra um þjónustu dýralækna í dreifðum byggðum og vaktþjónustu dýralækna“ eins og fram kemur í auglýsingu MAST

Bændur á Vestfjörðum geta brátt leitað til dýralæknis á svæðinu …
Bændur á Vestfjörðum geta brátt leitað til dýralæknis á svæðinu á ný. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert