Hvalirnir hugsanlega að færa sig norðar

Grindhvalirnir á Löngufjöru.
Grindhvalirnir á Löngufjöru. Ljósmynd/David Schwarzhans

Skýringin á því hvers vegna grindhvalir hafa í vaxandi mæli sést við Ísland undanfarin ár og ekki síst í sumar er líklega meðal annars hærra hitastig í hafinu í kringum landið.

Þetta segir Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, í samtali við mbl.is, en vísbendingar séu um að fleiri hvalategundir hafi leitað norðar en áður. Hitastigið hefur þó ekki áhrif á hvalina sjálfa en hefur hins vegar leitt til þess að bæði loðna og makríll, sem hvalir éta, hafa leitað norðar í kaldari sjó á undanförnum árum.

„Þannig að þessi aukna koma grindhvala gæti tengst því að þeir séu hugsanlega orðnir algengari en þeir voru hérna við landið. Hins vegar er þetta geysistór stofn, hann er kannski um 600-800 þúsund í Atlantshafinu, og við erum má segja á norðurmörkum útbreiðslunnar en kannski hafa norðurmörkin færst norðar,“ segir Gísli enn fremur, en grindhvalir eru sem kunnugt er til að mynda algengir í kringum Færeyjar.

Fleiri fréttir en áður af grindhvölum?

Mögulega kunni aukinn fjöldi ferðamanna einnig að hafa haft áhrif, að sögn Gísla, á það hversu miklar upplýsingar berist af grindhvölum við landið. Þannig fari fólk meira á fáfarna staði en áður og fyrir vikið geti verið að frést hafi frekar af því þegar grindhvalir hafi rekið á land. „Fólk er miklu meira á ferðinni og við fréttum kannski meira af slíku en áður.“

Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.
Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun. mbl.is

Fyrir vikið sé mjög líklegt að grindhvalir hafi rekið á land á fáförnum stöðum í gegnum tíðina og hræin síðan grafist í sand eða náttúran unnið á þeim með öðrum hætti án þess að nokkur hafi vitað af því. Nefnir Gísli til að mynda fjölda hvala sem rak á land á Löngufjörum á Snæfellsnesi fyrr í sumar sem ferðamenn í þyrluflugi tóku eftir.

„Þetta er langt frá mannabyggðum og hugsanlegt að ekkert hefði frést af þessu annars,“ segir Gísli en hræin af grindhvölunum hurfu tiltölulega hratt í sandinn eftir að þau höfðu verið uppgötvuð. „Þannig að sá þáttur er kannski hluti af skýringunni en það hefur líka verið aukning í byggð þar sem hvalirnir hafa farið inn í hafnir til dæmis.“

Fróðlegt verði, að sögn Gísla, að fara yfir gögn varðandi grindhvali með sérfræðingum í Færeyjum og hvort þau bendi mögulega til fækkunar á móti þar á bær sem styðji þá vangaveltur um að hvalirnir séu að færa sig norðar. Vísindanefnd NAMMCO mun funda í Færeyjum í haust og þar verða bækur sérfræðinga væntanlega bornar saman.

mbl.is