Búið að ráða í 98% stöðugilda

Grunnskólar Reykjavíkur verða settir í dag. Vel hefur gengið að …
Grunnskólar Reykjavíkur verða settir í dag. Vel hefur gengið að ráða í stöður kennara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búið var að ráða í 98% stöðugilda í grunnskólum borgarinnar og 96% í leikskólum 16. ágúst, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Er ekki seinna vænna, enda hefst skólastarf í grunnskólum í dag.

Erfiðara hefur þó reynst að manna frístundaheimili og sértækar félagsmiðstöðvar, en þar var búið að ráða í 78% stöðugilda 16. ágúst er upplýsingar höfðu borist frá öllum stjórnendum.

Segir í tilkynningunni að starfsmannaþörf sé meiri nú en í fyrra þar sem einhverjir leikskólar hafi verið stækkaðir og börn séu nú innrituð fyrr en áður, en engu að síður gangi betur að manna störf en í fyrra. Þannig hafi 94% stöðugilda leikskóla verið mönnuð á sama tíma í fyrra, samanborið við 96% nú.

Um mikið verk er að ræða, en 63 leikskólar eru í Reykjavík og dvelja þar um 6.000 börn, á forsjá 1.570 starfsmanna. Óráðin stöðugildi eru 60, þar af tveir aðstoðarleikskólastjórar, fimm deildarstjórar, 39 leikskólakennarar, fjórir sérkennslustjórar og tíu stuðningsliðar.

Grunnskólar á vegum Reykjavíkurborgar eru 36 talsins og eru þar um 14.000 börn og 1.970 starfsmenn. Óráðið er í stöðugildi átta kennara, 17 stuðningsfulltrúa, 14 skólaliða og eins þroskaþjálfara. Er það sambærilegt við í fyrra þegar 33 stöður voru ómannaðar.

mbl.is