Taka ekki við peningum sem greiðslu

Flugfélagið Air Iceland Connect tekur eingöngu við greiðslum með kortum …
Flugfélagið Air Iceland Connect tekur eingöngu við greiðslum með kortum ekki reiðufé. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Flugfarþegar með innanlandsflugi Air Iceland Connect geta ekki greitt fyrir flugfarið með peningaseðlum. Eingöngu er tekið við greiðslum með kortum í afgreiðslunni. Þessi breyting tók gildi fyrir um ári síðan.  

Viðskiptavinur sem hugðist fljúga frá Egilsstöðum til Reykjavíkur í vikunni ætlaði að greiða fyrir flugið með seðlum í afgreiðslunni. Honum var greint frá reglunum og ekki var tekið við peningunum. Annar farþegi í sama flugi, fréttaritari mbl.is, ákvað að koma honum til aðstoðar og greiða fyrir flugið með greiðslukorti sínu. Hann fékk umrædda upphæð í peningum fyrir vikið frá farþeganum. 

„Það hefur ekki verið þörf á því að halda þeirri þjónustu úti,“ segir Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Air Iceland Connect um greiðslufyrirkomulagið. Hann tekur fram að þegar slík tilfelli koma upp er boðið upp á að millifæra inn á flugfélagið, margir geri það í gegnum síma sína.  

Hann bendir á að um 90% flugfarþega bóki flug og greiði fyrir það á heimasíðu flugfélagsins, auk þess greiði langflestir viðskiptavinir með korti. 

Árni Gunnarsson, framkvæmdarstjóri Air Iceland Connect.
Árni Gunnarsson, framkvæmdarstjóri Air Iceland Connect. mbl.is/Árni Sæberg

Spurður hvort þetta sé löglegt segist hann ekki vita til þess að þetta sé ólöglegt. „Við erum þjónustufyrirtæki og ákveðum að veita þessa þjónustu með þessum hætti,“ segir hann og bætir við: „Notkun á reiðufé er orðin mjög takmörkuð. Það fylgir því viðbótarkostnaður að taka við reiðufé miðað við að taka allt í gegnum kort“. 

Samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands segir í 5. grein, 2. málsgrein að „Seðlar og mynt sem Seðlabankinn gefur út skulu vera lögeyrir til allra greiðslna með fullu ákvæðisverði“. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert