Vilja seinka tímabili hreindýraveiða

Fagráð um dýrvelferð hefur beðið Umhverfisstofnun um að endurskoða tilhögun …
Fagráð um dýrvelferð hefur beðið Umhverfisstofnun um að endurskoða tilhögun hreindýraveiða. mbl.is/Sigurður Ægisson

Fagráð um velferð dýra, sem hefur eftirlit með framkvæmd laga um velferð dýra, samþykkti á fundi sínum fimmta mars að beina þeim tilmælum til Umhverfisstofnunar að endurskoða veiðiráðgjöf og/eða veiðistjórnun hreindýraveiða með tilliti til velferðar hreindýrakálfa.

Tilmælin bárust hins vegar ekki Umhverfisstofnun með formlegum hætti fyrr en 24. júní vegna mannlegra mistaka.

Málið snýr að tilfellum þar sem kýr eru felldar frá kálfum. „Það getur varðað velferð kálfanna,“ útskýrir Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir og formaður fagráðs. Hún segir fagráð hafa komist að þeirri niðurstöðu að „það væri ekki nógu mikið vitað um afdrif kálfa felldra kúa. Við beindum þeim tilmælum að endurskoða þessa veiði með tilliti til þessa“.

Var meðal annars vísað til þess að veiðitímabil hreindýraveiða hefjist seinna í Noregi en hér á landi. Jafnframt var ítrekuð „nauðsyn þess að gerðar verði rannsóknir á þroska og afdrifum kálfa með tilliti til þess hvort þeir fylgja móður að vetri eða eru móðurlausir s.s. vegna þess að hún er felld á veiðitímabili“, að því er segir í tilmælunum.

Of seint til að verða við tilmælunum

Hinn áttunda júlí svaraði Umhverfisstofnun tilmælum fagráðs og sagði illmögulegt að breyta fyrirkomulagi veiðistjórnunar vegna þess að búið væri að úthluta veiðiheimildum fyrir veiðitímabilið 2019.

Í svarinu segist stofnunin ekki leggjast gegn frekari rannsóknum, en að nú þegar hefði Náttúrustofa Austurlands „rannsakað efnið töluvert og hugsanlega þarf að tryggja Náttúrustofu Austurlands frekara fjármagn til að stunda frekari rannsóknir“.

Ekki nægilegar rannsóknir

„Það sem hefur verið gert til þessa er að meta stofninn og þar með er dregin sú ályktun að þar sem hann er ekki að minnka þá hljóti velferðin að vera nægjanleg, sem sagt að ef þetta væri svo slæmt myndi stofninn minnka,“ útskýrir Sigurborg. „Við teljum þetta ekki nægjanlegar upplýsingar, það þurfi í raun að fara fram atferlisrannsókn eða rannsókn eins og kemur fram í þessum tilmælum.“

Spurð hvort hún búist við því að tilmæli fagráðs muni hafa áhrif á næsta veiðitímabil svarar yfirdýralæknir: „Þessi tilmæli eru í gildi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert