Fólk streymir til landsins á #MeToo-ráðstefnu

#MeToo ráðstefna í Hörpu.
#MeToo ráðstefna í Hörpu. mbl.is

„Ég bjóst ekki við svona mörgum. Fólk virðist fagna því tækifæri að fá að kafa ofan í kjölinn á MeToo í þrjá daga,“ segir Halla Gunnarsdóttir jafnréttisráðgjafi ríkisstjórnarinnar og skipuleggjandi alþjóðlegrar ráðstefnu, #Metoo Moving forward, sem hefst í dag í Hörpu.

Ráðstefnan stendur yfir í þrjá daga, hefst í dag og stendur fram á fimmtudag. Fyrirlesararnir eru 80 talsins þar af 50 erlendir. Um 800 manns hafa skráð sig þar af er um fjórðungur erlendir gestir. Þetta er um helmingi fleiri en upphaflega var reiknað með að kæmu á ráðstefnuna.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra setur ráðstefnuna kl. 14.30 í dag. Ráðstefnan hefur þegar vakið mikla athygli víða um heim og eru meðal annars fréttir og viðtal við Katrínu á fréttamiðlunum CNN og Guardian. Í frétt CNN er haft eftir Katrínu að hún bindi vonir við að „kynferðisleg áreitni heyri sögunni til“.   

„Það er gott að taka stöðuna á því hvað hefur gerst á þessum tveimur árum; hvað hefur breyst, hvað ekki, hvaða breytingar sjáum við mögulega til frambúðar. #MeToo birtist á ólíkan hátt milli landa og okkur langar að skoða hvers vegna það er. Hvaða skilyrði eru fyrir hendi í sumum löndum sem veldur því að þetta verður rosalega stórt og í öðrum löndum verður þetta minniháttar,“ segir Halla. 

Hún bendir á að MeToo-byltingin birtist á ólíkan hátt milli hópa. „Það verða raddir þarna sem við höfum ekki heyrt og við ætlum að hlusta eftir þeim. Hvaða veruleika fáum við að horfast í augu við og hvaða veruleika þurfum við ekki að horfast í augu við,“ segir Halla.

Umfjöllunarefnin á ráðstefnunni eru fjölbreytt, til að mynda greinir fyrirlesari frá Svíþjóð frá reynslu kvenna í vændi og frá Bandaríkjunum kemur talsmaður samstarfs kvenna sem sinna heimilisþrifum á Norðurlöndunum og greinir frá upplifun sinni.  

„Við erum að reyna að skoða götin líka ákveðin þemu sem hafa komið í tengslum við MeToo eins og réttæti, verkferla, samþykki og bakslagið,“ segir Halla.  

„Ég er fyrst og fremst spennt að sjá hvað gerist. Mér finnst mikilvægt að Íslands sem á að heita best í heimi í jafnréttismálum bjóði upp á rými til umræðu sem hjálpar okkur að kafa dýpra ofan í þetta. Þrátt fyrir að við eigum að vera góð í jafnréttismálum þá afhjúpaði MeeToo veruleika sem við viljum ekki að sé til á Íslandi. Mér finnst mikilvægt að við leiðum í þessari umræðu. Ég vonast til að þessi ráðstefna hjálpi til við að halda áfram með MeToo, að þetta hverfi ekki. Mér finnst við skulda öllum þessum konum sem stigu fram og söfnuðu þessum sögum saman, öllum konum víða heim sem stigu fram og settu allt sitt í hættu, að taka við keflinu og halda áfram,” segir Halla. 

Aðaldagskráin fer fram í Silfurbergi í Hörpu og verður hún í streymi. Sjá hér.  

Hér er dagskrá ráðstefnunnar. 

Þrátt fyrir að skráningu hafi lokið 10. september er fólki velkomið að koma í Hörpu og taka þátt í einstaka dagskrárliðum svo lengi sem húsrúm leyfir. Fólki er bent á að boða komu sína með stuttum tölvupósti á tobba@atconferences.is og taka fram hvaða dagskrárliði fólk hyggst sækja. 

Halla Gunnarsdóttir jafnréttisráðgjafi ríkisstjórnarinnar og skipuleggjandi alþjóðlegrar ráðstefnu, #Metoo Moving …
Halla Gunnarsdóttir jafnréttisráðgjafi ríkisstjórnarinnar og skipuleggjandi alþjóðlegrar ráðstefnu, #Metoo Moving forward, sem hefst í dag í Hörpu. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert