Múrinn brotinn hjá Ágústu í Yorkshire

Ágústa Edda Björnsdóttir tók í dag þátt fyrst Íslendinga á …
Ágústa Edda Björnsdóttir tók í dag þátt fyrst Íslendinga á heimsmeistaramóti í götuhjólreiðum. mbl.is/​Hari

Ágústa Edda Björnsdóttir varð í dag fyrst íslenskra kvenna til að taka þátt á heimsmeistaramóti í hjólreiðum og fyrsti Íslendingurinn til að taka þátt í heimsmeistaramóti í götuhjólreiðum. Tók hún þátt í svokallaðri tímaþraut á heimsmeistaramótinu í Yorkshire í Bretlandi, en farin var 32 kílómetra leið með 474 metra hækkun milli bæjanna Ripon og Harrogate.

Rætt er nánar við Ágústu á vef Hjólafrétta, en þar segir hún aðstæður hafa verið mjög erfiðar, bæði vegna mikillar rigningar yfir daginn sem gerði keppendum erfitt fyrir, og þá hafi brautin verið mun tæknilegri en hún hafi vanist hér á landi. Erfitt sé að „láta sig hafa það“ í gegnum krappar beygjur á mikilli ferð, sérstaklega í bleytu. 

Ágústa endaði í 49. sæti af 53 keppendum. Hún segist sátt við aflið, en að hún hafi bæði gert smá mistök í byrjun og þá hafi hún tapað talsverðu á tæknilegu köflunum. 

Ágústa mun keppa næst í hefðbundinni götuhjólakeppi á heimsmeistaramótinu á laugardaginn, en Rúnar Örn Ágústsson mun keppa á morgun í karlaflokki í tímaþraut.

Hin 22 ára gamla Chloe Dygert frá Bandaríkjunum stóð uppi sem sigurvegari í dag, en hún átti alveg ótrúlegan dag og var 1:32 mínútum á undan næsta keppenda, Anna van der Breggen frá Hollandi. 

Frétt Hjólafrétta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert