„Kostnaðurinn skiptir engu máli“

Hér sést ljósið sem þarf á rafmagni að halda.
Hér sést ljósið sem þarf á rafmagni að halda. Ljósmynd/Svavar Steingrímsson

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia, segir öryggi í forgrunni þegar staðsetning sólarorkustöðvar á Heimakletti verður valin. Enn sé til skoðunar að leggja frekar rafmagnskapal, eins og sjálfstæðismenn í bæjarstjórn hafa lagt til. 

Hún segir ekki meitlað í stein að sólarorkustöðin verði á toppi Heimakletts. Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hjá Vestmannaeyjabæ tjáði mbl.is fyrr í dag að það að staðsetja sólarorkustöðina á toppi heimakletts myndi fela í sér sjónrænt inngrip. Vestmannaeyjabær hafði lagt til að stöðin yrði sett upp í hvarfi.

Of mikill halli

„Okkar aðalmál er að þessi stöð sé staðsett þannig að það sé hægt að þjónusta hana. Sú staðsetning sem Vestmannaeyjabær hefur lagt til er í mjög mikilli brekku. Þarna þarf að fara upp með vararafgeyma og annað sem eru 20-30 kíló og það er ekki hægt að leggja það á starfsmenn að fara að athafna sig í þessum halla,“ segir Sigrún.

„Vandamálið er að þetta er ekki bara einskiptis aðgerð, það þarf að þjónusta hana næstu árin og það er það sem við erum að tryggja, að öryggi starfsmanna sem þjónusta stöðina sé haft í fyrirrúmi. Þess vegna þurfum við að velja stað í samráði við bæinn og Björgunarfélag Vestmannaeyinga um það hvar sé hægt að finna stað sem þjónar báðum hagsmunum. Sé öruggt að vinna við, sé öruggt að setja upp og sé öruggt að viðhalda.“

Kannast ekki við grafirnar

Málið er þannig vaxið að Isa­via þarf að tryggja flug­ljósi á toppi Heimakletts raf­magn fyr­ir ör­ugg­ar flug­sam­göng­ur. Þar er nú raf­magn­skap­all sem hef­ur tryggt ljós­inu raf­magn en í hon­um hef­ur komið upp ólag­fær­an­leg bil­un. Isavia hefur verið gert að fjarlægja gamla kapalinn og því taldi bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Hildur Sól­veig­ Sig­urðardótt­ir, ekki úr vegi að nýr kapall væri lagður um leið. 

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia.
Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia.

„Það er eitthvað sem við þurfum bara að skoða. Þegar það er komin niðurstaða í þetta mál göngum við eins vel frá og við getum,“ segir Sigrún. 

Hildur sagði að Isavia hefði sagt of kostnaðarsamt að leggja nýjan kapal. Um það segir Sigrún: „Kostnaðurinn skiptir engu máli í þessu sambandi. Það eina sem við erum að hugsa um er að þetta virki og þarna sé öruggt að athafna sig í framtíðinni.“

Isavia gróf tvær grafir á toppi Heimakletts í óleyfi að sögn Hildar. mbl.is birti myndir af þeim með fyrri frétt um málið.

„Þetta kannast ég ekki við. Það getur vel verið að það hafi verið gerð einhver prufustaðsetning. Ég veit það ekki. Þetta er eitthvað sem ég þekki ekki en ef það er eitthvað sem þarf að ganga frá þá munum við ganga frá því. Við munum ekki skilja eftir nein lýti eða neitt þess háttar,“ segir Sigrún. Björgunarfélag Vestmannaeyja hefur séð um framkvæmdina fyrir Isavia. 

Sigrún segir að stefnt sé að því að finna varanlega lausn eins fljótt og hægt er. „Þegar við erum búin að ná samkomulagi við bæinn um það hvar þessi staðsetning geti verið. Við þurfum að fá þyrlu til að hjálpa okkur við að staðsetja rafstöðina svo þetta kallar á aðkomu nokkuð margra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert